Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

United Healthcare Marathon, Newport, RI USA 13.10.2013

United Healthcare Breakers Marathon,
Newport, RI USA
http://www.uhcmarathon.com 

ÉG ætlaði að sofa á mínu græna og sleppa þessu maraþoni... EN ég glaðvaknaði kl 4:30 í nótt. Fór upp í aftur og reyndi að sofna... sagði NEI, NEI ég ætla ekki... en mér leið ágætlega, svo ég byrjaði að klæða mig, tautandi "ég trúi því ekki að ég ætli að fara"

Newport Marathon, Rhode Island 13.10.2013

Í stuttu máli sagt... var ég með fyrstu mönnum á staðinn þar sem heila maraþonið átti að leggja bílunum og fara í rútu. Ég átti nefnilega eftir að sækja númerið mitt.

Ég var alltof snemma í því en gat sest niður í 1 klst. Fljótlega dreif að fólk og ég fór að heyra sögurnar frá Hartford og aðal spurningin var: fékkst þú verðlaunapening ?... og fljótlega var fundið út að verðlauna peningarnir höfðu klárast löngu áður en 4 tímar voru liðnir.

Easton´s Beach RI. 2013

Ég missti af hópmyndatökunni í gær en náði henni í dag... heppin, því ég er ekki með ljósmyndarann minn með mér í þetta sinn. Maraþonið var ræst kl 8 á Easton´s Beach.

Fyrri helmingur hlaupsins var mjög fallegur og hér eiga víst að vera stærstu hallir í Ameríku...síðan hlupum við í gegnum markið og seinni helmingurinn var "út í sveit" sem sagt - ekki eins skemmtilegir fram-og-til-baka leggir. Þann hluta hljóp ég með Melanie sem hljóp líka í Hartford í gær. Við hlupum eftir 1-1 kerfi (Galloway) 
http://beta.active.com/running/articles/run-walk-run-to-faster-times-faster-recovery

Ég reyndi að hlaupa rólega og afslappað... og maginn var til friðs alla leiðina. Þökk sé Guði :)

Þetta maraþon er nr 167, garmurinn mældi það 42,84 km og tímann 6:27:51 


ING Hartford Marathon CT, 12.10.2013

ING Hartford Marathon Hartford, CT USA
http://www.inghartfordmarathon.com

Klukkan var stillt á 5:00 vegna þess að það voru bara 10 mín. á startið. En ég svaf eiginlega ekkert um nóttina þó ég færi snemma uppí. Ég var með magakveisu og sat á klósettinu mest alla nóttina. Þegar klukkan hringdi var maginn galtómur... Nú voru góð ráð dýr því það er mjög erfitt að ætla maraþon svona í maganum. En ég seldi mér þá hugmynd að komast einhvernveginn í gegnum það.

Ég tékkaði mig út og fór að stað fyrir 7 og fékk stæði á ágætis stað. Hefði kannski átt að hugsa betur um staðsetninguna gagnvart markinu en ekki startinu þá hefði ég verið fljótari og farið styttri leið að bílnum eftir hlaupið.

Gögn í Hartford CT 532,1

Hlaupið var ræst kl 8 og í upphafi var kalt. Það hitnaði fljótlega og sólin skein allan tímann. Ég passaði mig að smitast ekki að þeim sem voru hraðari og tókst að halda maganum góðum fyrstu 7-8 mílurnar. Þá byrjaði ballið - það er að eftir það átti ég stefnumót við klósettin á leiðinni og varð að ganga.

það þýddi ekkert að reyna að hlaupa - og stundum varð ég að hæga á göngunni.  Ég ætlaði ekki að lenda í þrumu-skoti á leiðinni og ég ætlaði að klára. Þetta var orðið skelfilega erfitt í lokin og ekki gerlegt að fara annað á morgun.

Hartford CT 12.10.2013

Þegar ég kom í markið - og ekki síðust... voru verðlaunapeningarnir búnir, svo ég fæ minn sendan í pósti... ég fór strax að bílnum og keyrði til Rhode Island þar sem ég á pantað næsta hótel og maraþon. Alla leiðina gældi ég við að sækja gögnin til vonar og vara og sjá til hvort ég kæmist á morgun... EN ÞAÐ ER BARA BULL að ætla það... Það er ákveðið - ég sleppi því.

Ing Hartford maraþon er nr 166 og 26. fylkið í hring nr tvö
Garmurinn mældi vegalengdina 42,86 km og tímann 6:51:??


Gögnin sótt í Hartford CT

Gögn í Hartford CT 527

Ég var frekar sein í Exp-ið því ég var í "shopping-stuði" náði næstum að klára listann minn....
Á leiðinni niður stigann í expo-ið mætti ég Steve Boone í stiganum og hann beið eftir mér á meðan ég hentist inn að sækja númerið og bolinn og ég fór út aftur til að vera samferða honum á REUNION hjá 50 States Marathon Club.

Gögn í Hartford CT

Það kom mér á óvart að hann og Paula kölluðu mig fram... það er hefð að mynda þá sem hafa "Finished the States" næst þegar þeir mæta á reunion. Þetta er í fyrsta sinn sem ég mæti. Ég þekkti helling af fólki og ég varð að vera með smá ræðu og tala eitthvað á íslensku :)  


Vona að haustið verði fallegt :)

Dagurinn í dag var virkilega fallegur þó ég hafi ekki notað hann til að hlaupa. Frá síðasta maraþoni hef ég aðeins farið á stjá... 

26.sept... Við Vala hjóluðum upp í Kaldársel og til baka, 18,6 km

31.sept... Hrafnistuhringur í góðum gír með Völu 12,5 km

2.okt... hljóp ég ein upp Krísuvíkurveginn 12,5 km... Veðrið var fallegt og þetta var mjög gott hlaup í rólegheitum og íhugun :)

5.okt... dreif ég mig út og hljóp Ástjarnarhringinn, hafði varla tíma fyrir meira í dag. Veðrið var gott og ég naut hverrar mínútu þó hringurinn væri stuttur... 5,1 km 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband