Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Gögnin sótt fyrir Texas Marathon

Gögnin sótt 31.12.2012

Árið byrjar vel - með maraþoni í Texas. 

Við sóttum númerið fyrir Texas Marathon í dag... en maraþonið er alltaf á nýjársdag. 

LOKSINS hafði ég tækifæri til að kaupa mér 50 States Marathon Club FINISHER shirt :D

Hvílíkt þrekvirki hjá þessum hjónum, Steve og Paulu Boone að skipuleggja og sjá um alla framkvæmd á þremur stórum maraþonum og risa-jólaboði á 10 dögum... enda held ég að þau séu úrvinda.  

Gögnin sótt 31.12.2012

Ég hljóp þetta maraþon 2006... að hugsa sér - fyrir 7 árum, mér finnst svo stutt síðan. Verðlaunapeningurinn er leyndarmál en Lúlli reyndi að kíkja í pappakassana... peningarnir eru svo stórir og þungir að það eru bara 10 stk í hverjum kassa. 

Maraþonið verður ræst kl 8 og veðurspáin er ágæt, samt einhver möguleiki á rigningu.

Nú er bara að stilla klukkuna og hvíla sig :D 


Annáll fyrir HLAUP-ÁRIÐ 2012

Guffi - 7. og 8. jan 2012

Ég hef alltaf setið heima og skrifað annál ársins en nú er ég stödd í Texas. Í fyrra náði ég þeim ótrúlega áfanga að hlaupa maraþon í fimmtugasta og síðasta fylkinu og hljóp alls 13 maraþon á því ári.

Í ár fór öll orkan fyrri hluta ársins í að útskrifast úr guðfræðideildinni og einhvernveginn fór allur vindur úr mér eftir það - tveim stórum áföngum var lokið - nú var tími til að halla sér aftur á bak.

Árið byrjaði á því að ég hljóp HÁLFT maraþon í Orlando - HVAÐ ER AÐ GERAST ???... nei, nei ég hljóp GUFFA. Hálft maraþon fyrri daginn og heilt daginn eftir. Það kostar lifur og lungu að taka þátt í Guffa en ég lét mig hafa það til að fagna hinum stóru áföngum.
Verðlaunin 2012Síðan flugum við til Arizona því stefnan þetta árið var að hlaupa nokkur Rock´N´Roll maraþon á sama árinu og fá flott auka-BLING fyrir það.
Í upphafi ársins þorði ég ekki að vonast eftir mörgum, þetta eru svo dýr maraþon og dreifð að það er ómögulegt fyrir mig að hlaupa mörg í ferð - en í árslok eru þau orðin FIMM.

Phoenix Arizona........  15.jan.
Nashville Tennessee.  28.apr.
San Diego.................... 3.júní
Denver....................... 22.sept.
Las Vegas.................... 2.des. 

Heima hljóp ég bæði vor-og haust-maraþonin og í Reykjavík heilt maraþon 16.árið í röð. 

Síðustu fjögur ár hef ég hlaupið 1x tvö maraþon á einni helgi. Ég var skráð í svona samloku í júní þegar ég fór í annað sinn á Reunion hjá Marathon Maniacs en varð að hætta við það.

Double in Texas Dec. 21st and 22nd. 2012

Það var síðan fyrir algeran klíkuskap að ég komst inn í hrikalega spennandi samloku-hlaup... End of the World Marathon  og Day After the End of the World Marathon, 21 og 22.des. en 21.des endaði dagatal Mayanna. Hvor verðlaunapeningur fyrir þessi hlaup er rúmlega hálft kíló og þeir sem hlupu bæði maraþonin fengu gull-auka-pening sem hafði báðar hliðar hinna peninganna.
End of the World Marathon var 150.maraþonið mitt.
Það voru vinir mínir Paula og Steve Boone í 50 States Marathon Club sem héldu maraþonin og kreistu mig inn... og svo vildi til að með stuttum fyrirvara fann Bíðari nr.1 flugfar á viðunnandi verði... og nú bíðum við eftir Texas Maraþoni sem þau halda 1.jan ár hvert.

Samtals hljóp ég 12 maraþon á þessu ári... 
3 heima og 9 í sex ferðum til USA.

Ég hef ekki tekið saman hlaupna kílómetra á árinu. Ég skráði áður hlaupin í hlaupadagbókinni en eftir að hún hrundi nenni ég ekki að standa í svoleiðis. Ég held utanum hlaupin mín sjálf á bloggsíðunni og í exel skjali, bara fyrir mig :) en maraþonin eru alls orðin 151 talsins.

Ég er með sérstakan færsluflokk MARAÞON til hliðar þar sem ég safna saman maraþonfærslunum og albúm með fylkjunum. Þar sést hvaða maraþon ég hef hlaupið í hverju fylki fyrir sig.

Gleðilegt nýtt hlaupa-ár 


Day after the End of the World Marathon 22.12.2012

Day after the End of the World Marathon
Humble, TX USA  22.des. 2012
http://www.50statesmarathonclub.com/afterworld.html

The Day After the End of the World Marathon 22.12.2012 391

Ég vissi nákvæmlega hvað beið mín í dag... sama leið og í gær, 4x fram og til baka með krókaleiðum kringum vatnið... Við vöknuðum á sama tíma (kl 5) og fórum á svipuðum tíma af stað um kl 7.

Ég var með tvennan hlaupagalla til að hlaupa í þessa helgi - nema skó.. þeir voru þeir sömu og í gær. Ég hef 4x áður hlaupið 2 maraþon á einni helgi en alltaf verið með tvenna skó.
The Day After the End of the World Marathon 22.12.2012 394Ég var ekki einu sinni með NIKE trail skó sem ég hleyp venjulega í allt árið því ég er með slæmt tábergssig og þarf loftpúða undir tábergið. 

Hlaupið var ræst kl 8 eftir myndatöku hjá Marathon Maniacs og þjóðsöngnum - sem ég kann orðið betur og heyri oftar en þann íslenska.

Fyrst var ég nokkuð brött en síðan varð ég ofboðslega fótsár á hægra táberginu, en það kom ekkert annað til greina en að klára. Veðrið var frábært og lá við að ég sólbrynni á höndunum.
Pizza í miðju maraþoni - The Day After the End of the World Marathon 22.12.2012 397Ég þorði ekki annað en að hlaupa í síðum buxum út af sárunum á hægra fæti - glerhart og ójafnt undirlagið hefði getað verið fjötur um fót þegar maður er þreyttur í ofanálag. 

Ég var ein alla leiðina núna - hljóp með Róberti ,,vinkonu" í gær ;D... Hann sagði að Carol Maniac kallaði sig ,,girl friend" af því að hann talaði svo mikið.

The Day After the End of the World Marathon 22.12.2012 401Margir sem hlupu í gær hlupu aftur í dag, því að er rosalega flottur peningur auka fyrir það. Þessi peningur er minni en hefur báðar hliðar stóru peninganna.

Ég var orðin gersamlega uppgefin á táberginu þegar ég kom í mark og komin með upp í kok af Gatorate. Ég fékk mér pizzu sneið og síðan fórum við á hótelið.

Þetta maraþon er nr 151
Garmin mældi það 27,11 mílur... 
og tímann skelfilega langan... 7:10:04      :/ 


End of the World Marathon, Humble Texas 21.12.2012

End of the World Marathon & Half Marathon
Humble, TX USA  21.des. 2012
http://www.50statesmarathonclub.com/endworld.html 

End of the World Marathon TX 21.12.2012

Þetta er stresslausasta maraþon sem ég hef tekið þátt í. Klukkan hringdi kl 5 en við erum bara 3 mílur frá starti og marki. Eftir að hafa snúist í hringi við þetta venjulega þá keyrðum við af stað rétt fyrir kl 7...  

Þetta maraþon tók aðeins 1000 þátttakendur samtals í heilu og hálfu. Fyrir hlaupið var sameiginleg myndataka Marathon Maniacs og 50 State Marathon Club.

End of the World Marathon TX 21.12.2012

Hitinn var rétt yfir frostmark í byrjun en það hitnaði fljótt og var um 15°c.
Ég þorði ekki annað en að hlaupa í síðum buxum, ef ég skyldi detta og rífa upp sárin á fætinum og svo var ég í flíspeysu fyrsta hringinn af fjórum.

Brautin var ójöfn, leyndar kanínuholur, rætur og sig í jarðvegi fyrir utan drullupytti og ,,kviksyndi" og endalausar krókaleiðir í hverjum hring.
End of the World Marathon TX 21.12.2012Á hverri drykkjarstöð var fólk á snakki enda sagði í lýsingu fyrir hlaupið - There´s no need to hurry to the end of the world... hehe.. ég fékk líka nóg af samræðum á leiðinni og margir sem heilsuðu mér og sögðu mér í hvaða maraþonum við höfðum hist. Enginn var í stressi og nóg tekið af myndum :D

Maraþonið mældist alltof langt - enda miðað við Maya-mílur ;) hehe... en medalían er sú glæsilegasta sem ég hef fengið - og á ég safn af hrikalega flottum verðlaunapeningum. 

Þetta er 150. maraþonið mitt
Garmin mældi vegalengdina 27,91 (Maya)-mílur og tímann 6:46:49
Tóm snilld :D


Gögnin sótt í Texas fyrir "End of the World Marathon"

Eins og sést á hinni bloggsíðunni þá gekk ferðalagið hingað ekki snurðulaust fyrir sig. En við erum komin til Humble Texas og verðum hér í 2 vikur.
Eftir hádegið í dag sóttum við gögnin fyrir maraþonin næstu tvo daga. Á morgun er ,,End of the World Marathon" og hinn daginn verður ,,Day after the End of the World Marathon".

Eftir að hafa sótt gögnin fengum við okkur að borða á Golden Corrall og fórum á hótelið... tími til að taka það rólega.


Á hausnum

Dallas 19.12.2012 350

Vala var veik, svo ég fór ein út eh og hljóp suður fyrir Straumsvík...

Ég vandaði mig mjög því það var aðeins hálka en á leiðinni til baka, þegar ég beygði inn í hverfið fór ég á hausinn. Ó eins og ég ætlaði ekki að detta NÚNA, akkúrat þegar ég er að fara út... EN, ég er með blóðugt margskorið hné, stórt mar og skurði framan á sköflungnum og rifu á hendinni... meiri óheppnin þetta - en það er ekkert annað en að þrauka þetta af.

Vel mörkuð útilegukind 11,8 km ;D


Með Völu á mánudaginn var

Þetta er orðin ótrúlega skrítin bloggsíða... það sem ég skrifa gerðist annað hvort í gær eða fyrradag... ástæðan er að ég stend á haus -á milli ferða- það er svo margt sem ég þarf að gera á þessum 10 dögum.

Við Vala hlupum á mánudaginn... engin hálka eða neitt sem hélt aftur af okkur. Við áttum því góðan hring í myrkrinu. Það var aðeins kalt en ekkert til að gera VEÐUR út af... hehe...

Ég var eitthvað í rugli með klukkuna en Hrafnistan er alltaf eins 12,5 km Wink 


Las Vegas Marathon 2.des.2012

Zappos.com Las Vegas Marathon & Half Marathon
Las Vegas, NV USA
 2. Dec. 2012
/runrocknroll.competitor.com/las-vegas

Las Vegas 1.12.2012

Maraþonið byrjaði kl 3 eh... Nú þurfti ekki að vakna um miðja nótt. Við erum enn á vitlausum tíma hér og svo svaf ég ekkert svo vel, þannig að við vorum orðin dauðþreytt áður en maraþonið var ræst. 

Maniac-myndatakan var við Welcome sign Las Vegas kl 11:30 

Las Vegas 1.12.2012 318

Ég hafði ekki tekið eftir því fyrr en eftir að ég skráði mig að tímatakmörkin voru 4:30 - frá síðustu yfir ráslínu... sem er ekki nálægt mínum tímum undanfarið. það var ekkert annað að gera en að hafa plan B ef ég þyrfti að taka skerðingu/styttingu. 

Hlaupið var ræst á réttum tíma og ég svindlaði mér í hólf nr. 2 til að bæta við tímann sem ég hefði til umráða. Plan B var að bæta þeim mílum sem vantaði við eftir að ég væri komin í mark - til að maraþonið væri fullgilt.

Las Vegas 1.12.2012

Við fórum af stað í björtu en 4:15 er komið myrkur í Vegas. Lýsingin var góð í miðbænum en annarsstaðar voru einstaka kastarar til að sýna misfellur í götunum. Mér gekk nokkuð vel til að byrja með en síðan gerði æfingaleysið vart við sig... og ég fór að ganga aðeins á milli...  

Hinni auglýstu leið hafði verið breytt, það var kynnt í expo-inu og ég sá hvernig þeir styttu leiðina með því að loka fyrir einstaka botnlanga á ákveðnum tímapunktum. Ég lenti í einni þannig styttingu í bakaleiðinni, 3 mílur voru skornar af leiðinni... sem ég bætti upp eftir að ég kom í mark.

Las V 2.12.2012

Lúlli áttaði sig ekki á því að ég gæti komið í mark undir 5 tímum og við fórum þess vegna á mis... Á meðan ég bætti mér upp mínar mílur, gekk hann óvart í öfuga átt að bílastæðinu, þar sem við ætluðum að hittast ef við sæjum ekki hvort annað við markið eða þar sem maður gengur út af mark-svæðinu og hann endaði með að ganga um 10 mílur samtals um daginn og ætti nú að fá pening fyrir það Wink

Garmin mældi leiðina 22,9 mílur og tímann 4:47:04
og ég bætti við 3,3 mílum og tímanum 44:23.... samt. 5:31:27

Las Vegas var 5. Rock´N´Roll maraþonið mitt á þessu ári og ég fékk sérstakan verðlaunapening fyrir það... Now I´m a Rock-Star Grin


Gögnin sótt í Las Vegas 1.des. 2012

Við sóttum gögnin á Venetian, Sands Expo... og það var nú bara maraþon út af fyrir sig að ganga alla þessa hringi og ganga frá bílastæðahúsinu í expo-ið. Það var stórt og mikið expo og ég skannaði hvort það væri eitthvað spennandi til sölu - hefði keypt pin-merki hlaupsins en það var svo löng röð að ég sleppti því.

Síðan keyrðum við til Lilju og Joe og þar var dekrað við okkur. Maraþonið byrjar kl 3 eh... svo ég þurfti ekki að fara snemma að sofa.

Ég er nr 55527


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband