Færsluflokkur: Ferðalög

Luxor Marathon 12.jan 2018

Egyptian International Marathon & 100K, 22.2K, 12.3K, 5K
Luxor, Egypt

Rames Luxor 12.jan 201812.jan 2018
http://www.egyptianmarathon.com

Fyrsta maraþon ársins 2018 var ekki auðvelt. Ferðalagið var langt og svo var ferðin látin enda á hlaupinu en ég hef alltaf vilja byrja á hlaupinu og eiga síðan frí ef ferðin var meira en helgi. 

Útlendingar þurfa að kaupa pakka sem innfelur hlaupið, rútu til og frá starti og marki, 3 nætur á Jolie Ville hótelinu og lokahófskvöldverð sem er líka á hótelinu. Pakkinn var svo sem ekkert rosalega dýr og þægilegt að vera á staðnum. Hótelið er frábært.

Gögnin voru afhent á fimmtudegi kl 4:30 í anddyri hótelins, við fengum okkur svo kvöldmat og fórum snemma að sofa.

20180112_065455Ég lét símann vekja mig kl 4:15. Klæddi mig en gat ekki teypað tærnar eins og venjulega því eftirlitið á flugvellinum tók af mér sport-teypið og litlu skærin mín sem ég er búin að fara ótal sinnum með gegnum öryggiseftirlit í Ameríku... en kannski héldu þeir að ég gæti rænt flugvélinni með þessu. Sem betur fer tóku þeir ekki mjóan plástur sem ég nota til að teypa tvær tær saman því annars leggst önnur þeirra á hliðina og það er svo sárt.

Morgunmaturinn átti að opna kl 5 en ég kom korteri áður og þá var allt til. Rútan átti að fara kl 5:30 á startið en fór korteri of seint. Það var um 45 mín keyrsla á startið sem var við Hatshepsut hofið (heitu-kjötsúpuna). Þar voru klósett í upphækkuðum gámum og auðvitað rukkað fyrir klósettpappírinn. Ekkert klósett var á leiðinni og ég er búin að vera slæm í maganum undanfarna daga.

Startið var kl 7... hlaupið 1,2 km niður að gatnamótum og tekinn um 10km hringur framhjá ökrum og gegnum "smáþorp" þessi hringur var hlaupinn 4 sinnum, en enginn frá hlaupinu sá um talninguna. Tveir menn fyrir framan mig hættu eftir 10 km... Kannski því leiðin var frekar leiðinleg, undirlagið gróft og óskaplega þreytandi börnin sem héngu í manni og suðuðu um pening. Auðvitað er ég ekki með pening í hlaupi og einn strákahópurinn henti tómri vatnsflösku í hausinn á mér og fannst það rosalega fyndið.

20180112_Luxor MarathonFyrst var kalt, rosalegur reykur í loftinu af rusli sem fólkið er að brenna, síðan kom bakandi hitinn. Mér gekk vel fyrsta eina og hálfa hringinn en þá fór ég að finna fyrir blöðru á vinstra hæli og eymslum í hægra táberginu... undirlagið var gróft og tábergið er sigið. Seinni hringirnir voru skárri því ég þekkti þá... svo við Guð tókum einn í einu. Það voru ca 40 manns í heilu og mjög einmannalegt á leiðinni.

Við fengum vatn og bananabita á leiðinni en ég var með 3 gel með mér og tók þau frekar en bananabitana. Með þessu maraþoni get ég bætt við einu landi og einni heimsálfu en Egyptaland fylgir Afríku.

Við fengum verðlaunapeninginn afhentan í hófi um kvöldið.

Þetta maraþon er nr 223
Garmin mældi vegalengdina 42,27 og tímann 6:33:39

Ég get ekki mælt með þessu hlaupi.  


Space Coast Marathon 26.nóv 2017

Space Coast Marathon & Half Marathon
Space Coast Marathon 2017Cocoa Beach, FL USA
26.nóv 2017

http://www.spacecoastmarathon.com

Við keyrðum frá Orlando til Cocoa Beach í gær og sóttum gögnin fyrir maraþonið í leiðinni. Við komum okkur fyrir á Days Inn, fórum út að borða, tókum saman hlaupadótið og fórum snemma að sofa. 

Klukkan vakti okkur Lovísu kl 2:30 en Berghildur og Edda áttu að geta sofið lengur, þær hlaupa ekki í þessari ferð.

20171126_Space Coast MarathonEftir hefðbundinn undirbúning sóttum við poka m/morgunmat, löbbuðum síðan yfir á Best Western til að taka rútuna á startið. Fyrsta rúta átti að fara 4:15 en var hálftíma of sein. Við komum um kl 5 á startið. Það var aðeins köld gola á meðan það var myrkur.

Maraþonið var ræst kl 6:30... Ég held ég hafi aldrei áður farið eins þreytt og lítið sofin í maraþon og nú... Við erum báðar skráðar í heilt en Lovísa ætlar að hætta eftir hálft. Við misstum fljótlega af hvor annarri eða þegar ég fór á klósettið - Lovísa var líka fljótari. Það var hlýtt úti og eftir að sólin kom upp var mjög heitt.

20171126_Space Coast MarathonFyrri hluti leiðarinnar er norður og veghallinn meiri en í neðri hlutanum en báðir leggir eru fram og til baka. Ég hitti ótrúlega marga hlaupa-brjálæðinga á leiðinni og náði ekki alltaf að taka myndir af þeim. Ég þekkti leiðina nákvæmlega enda fimmta árið í röð sem ég hleyp hérna.

Lovísa kláraði hálfa á flottum tíma en ég strögglaði við heila í steikjandi sól. Ég tók eitthvað af myndum í bakaleiðinni og hékk eitthvað í Galloway-hópum. Ég lenti í vandræðum á miðri leið þegar 10cm saumspretta kom á hlaupabuxurnar, ég áttaði mig ekki á hvað hafði gerst fyrr en mig var farið að svíða af nuddinu. Sem betur fer var ég í hlaupapilsi með áföstum stuttbuxum þannig að ég gat togað skálmina niður yfir nuddsvæðið og nælt hana fasta... og uþb á mílu 17 var ég farin að finna fyrir krampa framan á hægra læri og varð að vanda mig hvernig ég hljóp en í markið komst ég og er bara ánægð með mig.

20171126_Space Coast MarathonMér fannst miklu færri vera í brautinni en vanalega og einhvern veginn daufara yfirbragð yfir seinni hlutanum. Kannski hefur óveðrið sem gekk yfir í síðasta mánuði þegar nokkur hótel skemmdust og eru enn lokuð vegna viðgerða, haft einhver áhrif... 

Þetta maraþon er nr 222
Garmurinn mældi tímann 6:17:47

og vegalengdina 42,70 km


RnR marathon Savannah GA 4.nóv 2017

RnR Marathon Savannah
RnR


4.nóv 2017

http://www.runrocknroll.com/savannah/

20171103 RnR Savannah 4.nóv 2017Ég keyrði til Savannah og sótti númerin fyrir bæði hlaupin í gær. Expoið var ágætt. Síðan var ekkert annað að gera en versla aðeins, taka saman hlaupadótið og fara snemma að sofa... eða kl 18

Klukkan var stillt á 3am... þá var hitastigið 15°c... það er hitaviðvörun í gangi fyrir hlaupið... en eftir að hafa fengið mér að borða, hringt heim í bíðarann og annan hefðbundinn undirbúning - var ég tilbúin og lagði af stað kl 4:45

Ég lagði bílnum við Convention Center og tók ferju yfir á startið. Af því að ég var snemma í því fann ég bekk til að sitja á í ca klst.

Maraþonið var ræst kl.7:20. Það var strax orðið heitt og fljótlega farnir að detta dropar af derinu af rakanum. Ég passaði mig að drekka vel, borða gel og salt og fara ekki fram úr mér í hitanum. 

20171104_140807Ég var hérna síðast hér fyrir 2 árum og þá var einmitt hitabylgja, lokað á heilt og öllum skipað að fara hálft maraþon. Ég frétti núna að tveir hefðu dáið í því hlaupi en ekki einn eins og ég vissi þá. Nú stendur öllum til boða að skipta í hálft... og betri viðbúnaður heldur en síðast.

Hitinn hækkaði og var að ég held mestur 86°F. Þetta þýddi að fólk fór að ganga meira. Ég hægði á mér, gekk brekkur og síðustu þrjár mílurnar. Ég heyri stjórnandann segja að það væru 300 manns í brautinni á eftir mér.

Þetta maraþon er nr 221 (póstnúmerið á Völlunum) 

Garmurinn mældi tímann 6:24:41
og vegalengdina 42,67 km

Stóri peningurinn er fyrir Marathon Challenge sem ég tók þátt í.


R'N'R Maratona De Lisboa 15.okt 2017

Rock n Roll Maratona de Lisboa

15.okt 2017

http://www.runrocknroll.com/lisbon

Við sóttum númerið sl fimmtudag og tókum það frekar rólega í gær, föstudag. Lissabon er byggð utaní hæð og tómar brekkur hér í gamla bænum. Air-B&B-hellirinn okkar er mjög vel staðsettur fyrir markið... og það er lest á startið.

Klukkan hringdi kl 4 en ég hafði varla sofið. Ég var tilbúin að fara 5:30. Það var um 1,3 km ganga í lestina og ég var heppin að fá sæti því ferðin tók 40 mín og svo var 10 mín ganga á startið.

Ég var enn í klósettröðinni kl 8 þegar var startað og það stressaði mig ótrúlega... ég fór of hratt af stað og svo byrjuðum við á brekku.

Mér gekk ekki vel í þessu maraþoni og langað mest allan tímann að hætta, brautin lítið spennandi en kannski erfitt að velja aðra nema bæta við brekkum... en Guð sendi mér viljastyrk til að klára þetta. Hitinn rauk upp, var 23°c í hupphafi og 32°c á símanum hjá Lúlla þegar ég kom í mark. Ég neyddist til að ganga meira en helminginn og þá fæ ég í bakið.

Ég var síðust í maraþoninu, með sjúkrabíl, rútu og tvö lögregluhjól sem fylgdu mér og öðru hverju var suðað í mér að hætta. Þegar ég kom loksins í mark var búið að slökkva á mark klukkunni svo ég varð að sýna þeim úrið mitt til að fá tímann viðurkenndan... og finna út byssutíma.

Þetta maraþon er nr 220 (póstnúmer Hfj)
Garmin mældi vegalengdina 42,21
og tímann um 7 klst...
tíminn samkvæmt úrslitum var 07:03:55 - Chip: 06:59:38


NorthWest Series #5 Lewiston ID, 6.sept 2017

titleNWidaho

NorthWest Series, dagur 5, Lewiston ID
6.sept 2017

http://mainlymarathons.com/series-3/northwest/idaho

Við fundum nokkurn veginn rétta staðinn daginn áður... Það er í Hells Gate State Park... hinumegin við ána. Það eru uþb 10 km frá hótelinu. Við ákváðum að Bíðari nr 1 myndi bíða á hótelinu, úti er reykjarmökkur í loftinu vegna skógarelda allt í kringum okkur og skyggni lítið. Ég fékk að hafa herbergið til kl 12.

Ég er enn með sama númerið, nr. 19

Lewiston ID 6.9.2017Klukkan var stillt á 2 am... ég þarf að leggja af stað 3:15
Ég náði á mátulegum tíma fyrir startið kl 4 am. Hlaupið var á göngustíg 14x sama leiðin fram og til baka. Skógarstígar eru oft mjög mishæðóttir og erfiðir og enn verri í myrkri. Ég eyddi mikilli orku í þessa 3 tíma sem var myrkur en hvað gerir maður ekki til að sleppa við hitann að deginum. Þegar sólin kom upp var hún eldrauð en ég gat ómögulega náð litnum á mynd.

Lewiston ID 6.9.2017Það var nær sama fólkið í dag og í Oregon um daginn. Ég slapp við að detta en rak tærnar nokkrum sinnum í. Á leiðinni var þvottabjörn í tré og við göngustíginn var hind með kálf.

Mér gekk bara vel, var aðeins stirð eftir síðasta maraþon því æfingaplön hafa ekki verið að þvælast fyrir mér síðustu ár.

Þetta maraþon er nr. 219
Garmurinn minn mældi tímann 6:38:00 og vegalengdina 43,45 km 


NorthWest Series #2, Pendleton OR, 3.sept 2017

titleNWoregon
NorthWest Series, dagur 2, Pendleton OR
3.sept 2017

http://mainlymarathons.com/series-3/northwest/oregon

Við mættum á svæðið daginn áður og sóttum númerið. Ég er nr 19. Ég hitti fullt af brjálæðingum sem taka alla 6 dagana. Ég gekk með Sharon eina bunu í brautinni. Við Lúlli fengum okkur síðan að borða og tókum það rólega.

NorthWest Series Pendleton 3.sept 2017Ég fór fyrir tilviljun í póstinn minn og sá þá að það var búið að bæta við EXTRA EARLY START kl 4 am... enda er spáð gífurlegum hita á þessu svæði... fólk er hvatt til að vera inni sem mest. Klukkan var því stillt á 2:30 am til að vera tilbúin og mætt á svæðið fyrir kl 4 am.

Við byrjuðum í niðamyrkri, en höfuðljósin nægja alls ekki til að sýna allar misfellur... ég datt kylliflöt á gangstéttinni í fyrstu ferð, þegar 300m voru eftir af brautinni. Ég eyddi þvílíkri orku þessa 3 tíma áður en birti. 

20170903_104404Brautin var fram og tilbaka 14 ferðir og þegar birti gat ég farið að taka myndir af mér með þessu kolbrjálaða fólki. Hitinn ágerðist og þá var erfitt að drekka hvorki of mikið eða lítið. Ég stoppaði 6 sinnum til að teygja og fór 3svar á klósettið fyrir utan að það tók smá tíma að kíkja á sárin þegar ég datt.

Þetta maraþon er nr. 218
Ég get ekki annað en verið sátt frammistöðuna í dag... þrátt fyrir allt.
Garmin mældi tímann 6:33:00 og vegalengdina 43,3km


Prairie Series #3 S-Dakota 18.júlí 2017

titlePrairieSD

 


Mainly Marathons, Prairie Series, dagur 3, S-Dakota

http://mainlymarathons.com/series-3/prairie/south-dakota

Við komum við, á leiðinni suður, á staðnum þar sem hlaupið á að vera. Það er 20 mílur frá hótelinu... og betra að vita hvert maður á að fara í myrkri um hánótt. Við tékkuðum okkur inn á hótelið, ég tók til dótið og við fórum snemma að sofa. Vekjarinn var stilltur á 2:30 am

Um kl 11 var komið fárviðri, al-íslenskt-slagveður með rafmagnsleysi. Rafmagnið kom ekki á aftur fyrr en við vorum að stíga upp í bílinn. Höfuðljósið kom í góðar þarfir svo við gætum klætt okkur og undirbúið fyrir hlaupið.

Maraþonið var ræst kl 4:30 og var frekar óskemmtileg leið eftir grófum malarvegi 20 sinnum fram og til baka. Veðrið hékk þurrt, en hitinn var lúmskur, því mest allan tímann var skýjað og smá gola sem frískaði mann.

Þetta var virkilega erfitt maraþon fyrir mig, slæmt undirlag svo ég varð sárfætt, hitinn mikill, 500m hæð yfir sjávarmáli hefur áhrif þegar maður er þreyttur fyrir og svo datt ég niður í smá leiðindi. Ég held ég hafi aldrei drukkið jafn mikið í einu hlaupi en drakk samt ekki nóg... því eftir hlaupið fékk ég krampa í hendurnar þegar ég reyndi að klæða mig úr. Það hefur aldrei komið fyrir mig áður.

Ég var allra síðust í maraþoninu en einn sem var í 50k var á eftir mér. Ég fékk því skammarverðlaun... THE CABOOSE... síðasta vagninn í lestinni.

Til að kóróna hvað ég er mikill Maniac... dauðuppgefin, þá borgaði ég mig inn í tvö maraþon í september í nýrri seríu... ER ALLT Í LAGI MEÐ MIG ? 

Þetta maraþon er nr 216
Garmin mældi það 42,5 km og tímann 8:39:18 

PS. Ég held að ég hafi verið bitin af Tick í gær í Breckenridge.


Prairie Series #2 Breckenridge ND 17.júlí 2017

titlePrairieNDMN

 

 

Mainly Marathons, Prairie Series Day 2, Breckenridge ND
17.júlí 2017

http://mainlymarathons.com/series-3/prairie/north-dakota

Þetta maraþon er sérstakt fyrir mig. Ég pantaði nr 42 hjá Clint þegar ég hljóp á Kauai Hawaii í jan. Hlaupið er á 42 ára brúðkaupsafmæli okkar Lúlla og maraþon er einmitt 42,2 km... þetta getur ekki passað betur.

Við komum til Breckenridge síðdegis daginn áður og ég fékk númerið. Nokkrir voru enn í brautinni en í gær var fyrsti dagur seríunnar. Hitinn var um 30c og á að vera heitara á morgun. Við tékkuðum okkur inn á hótelið, ég tók dótið til og við fórum snemma að sofa. Klukkan var stillt á 3 am.

Maraþonið var ræst kl 4:30 í niðamyrkri. Ég var með höfuðljós. Startið var í Minnisota en markið í N-Dakota þannig að þeir sem hlaupa báða dagana fá bæði fylkin.
 

Það segir að fall sé fararheill... ég datt kylliflöt í myrkrinu á fyrsta hring... mig logsveið í lófana og annað hnéð... Leiðin var út og til baka 10 sinnum og smá lykkja að auki. Fljótlega vorum við í þrumum, eldingum og úrhelli í um klst. Þegar birti bættist regnbogi við flóruna á himni. Þegar leið á hitnaði verulega... hitinn kominn milli 80-90F í lokin.

Mér gekk ágætlega þrátt fyrir ferðaþreytu, tímamun og æfingaleysi.

Ég hitti fullt af brjáluðum hlaupafélögum sem sumir taka alla seríuna, 7 hlaup... og blanda þá saman heilum og hálfum.

Þetta maraþon er nr 215
Garmin mældi það 42,72 km og tímann 7:11:58  

PS. Talan 42 er sérstakt áhugamál hjá syninum og þess vegna skemmtileg tilviljun að tíminn minn er afmælisdagurinn hans 7.11


Buffalo Marathon 28.maí 2017

Buffalo Marathon & Half Marathon, Marathon Relay, 5K
Buffalo, NY USA
28.maí 2017
http://www.BuffaloMarathon.com

Við vorum heppin að geta skipt úr svítu í tvö einstaklingsherbergi... þá geta Vala og Hjöddi sofið út þó við Lúlli förum í hlaupið um miðja nótt.

Klukkan vakti okkur kl 3:30... og við vorum lögð af stað fyrir kl 5 am. Við vorum heppin með bílastæði... 100m frá starti og 200m frá marki... og ég náði Maniac myndatökunni.

Veðrið var frábært... hlaupið var ræst kl 6:30. Ég fór a20170528_Buffalo Marathonllt of hratt af stað og sprengdi mig... það var því verulega freistandi að hætta í hálfu... en heila maraþonið sveigði af leið rétt fyrir framan markið... en ég þraukaði alla leiðina. Bíðari nr 1 beið samviskusamlega við markið eftir mér.

Ég get ekki kvartað... allt heppnaðist vel, veðrið frábært, leiðin ágæt og þjónustan góð á leiðinni.

Þetta maraþon er nr.214
garmurinn mældi vegalengdina 42.77 km og tímann 5:59:43


RNR Nashville Marathon 29 apríl 2017

St. Jude Rock 'n' Roll Country Music Marathon,
and 1 mile race, 
Nashville, TN USA
29.apr.2017

http://www.runrocknroll.com/nashville/

Ég sótti gögnin fyrir maraþonið og fór míluna í gær, föstudag... Síðan tók ég saman dótið svo allt væri tilbúið. Það er spáð miklum hita á morgun og búið að gefa út viðvörun... startinu var flýtt um hálftíma og ef þörf verður á verður maraþonið stytt.

2017.04.29 fyrir start í NashvilleÉg hafði stillt símann á 3am en hann hef sennilega ekki heyrt í honum þegar hann hringdi (var í hleðslu á vaskborðinu)... svo ég svaf 45 mín lengur en ég ætlaði. Ég fór samt af stað á áætluðum tíma og fékk bílastæði á ágætum stað. Þaðan voru 2-2,5 km á startið. Ég missti af Maniac hópmyndinni, fann ekki staðinn. Ég stillti mér upp við startið til að geta farið sem fyrst af stað. Fyrir start voru allir orðnir rennblautir af hita og miklum loftraka, bæði föt og húð.

Hlaupið var ræst kl 6:45... og við fengum ótrúlegt úrval af brekkum ofan á hitann sem hækkaði skart... um kl 9 var hitinn kominn í 80 F og fór hækkandi, kominn yfir 90 F í lokin. Það var mikið sírenuvæl og ég sá fólk fá aðhlynningu í sjúkratjöldum á leiðinni. Ég veit um einn Maniac sem stytti úr heilu í hálft maraþon.

Hitinn lamaði mig og ég fór að ganga þónokkuð áður en ég var hálfnuð og sama virtist vera með flesta hlauparana í kringum mig. Ég fór í "sturtu" á hverri drykkjarstöð og reyndi að fá klaka og drekka mikið... Það er erfiðast að drekka hæfilega þegar það er heitt, ef maður drekkur of mikið er maður alltaf á klósettinu en ef maður drekkur of lítið getur maður fengið hitaslag af vökvaskorti.

2017.04.29 NashvilleÉg lenti í styttingu á síðasta leggnum... ég tók á það ráð að fara fram og til baka í brautinni til að vinna upp kílómetrana en það vantaði samt nokkra upp á þegar ég kom í mark... ég lét því klukkuna ganga áfram á meðan ég gekk í gegnum marksvæðið, fram og til baka leitaði ég að Remix tjaldinu með auka verðlauna peningnum, tjaldinu með jakkanum og svo lá leiðin kringum Nissan Stadium á bílastæði B sem var fjærst og týndu km voru þar með í höfn.

Þetta maraþon er nr 213
Garmin mældi leiðina 42,45 km og tímann 6:44:11 

PS. ég var skaðbrennd á bakinu eftir sólina... kannski sturturnar hafi átt einhvern þátt í því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband