Færsluflokkur: Áramóta annálar
GLEÐILEGT ÁR 2025
Ég óska öllum Guðs blessunar, gæfu og góðs gengis á komandi ári um leið og ég þakka fyrir árið sem er að líða.
Ég var í Texas um áramótin en nennti ekki að skrifa annálinn í símanum svo ég geymdi það þar til ég kom heim.
Eins og áður fór ég nokkrar ferðir erlendis til að hlaupa.. Ég var ákveðin að klára öll 50 fylkin í þriðja sinn 11 nóv 2023, en 50 ríkja klúbburinn samþykkti ekki hlaupið í Tennessee svo ég varð að fara út í mars til að klára það. Ég upplifði ekki sömu tilfinningar og í Richmond, þegar ég kláraði í Bristol. Það er ekki hægt að endurtaka svona sigur.
Ég réði mig í nokkra mánuði í Skagafjörðinn með aðsetur á Sauðárkróki frá 1.febr en dvölin var tvíframlengd og ég var til áramóta. Þar tognaði ég í hásin og átti í basli með það allt árið. Samt fór ég 4 ferðir til Ameríku og bætti 5 maraþonum í safnið.
Í fyrsta sinn hljóp ég ekki í Reykjavík, en ég náði að taka Ratleik Hafnarfjarðar öll 27 spjöldin í sumarfríinu, og synti með systrum ef ég var fyrir sunnan á föstudegi.
Vegna verunnar fyrir norðan gekk ég ekki á nein fjöll fyrir sunnan, ratleikurinn tók allan tímann sem ég hafði.
Maraþonin eru komin í 283 + 1 virtual fyrir San Francisco
Ultra-hlaup 10, 9 Laugavegir og 1 Þingvallahlaup
Fylkin kláruð í 3ja hring
maraþonlönd 27
Heimsálfur 5
4/6 Majors
GLEÐILEGT NÝTT HLAUPÁR
2025
Áramóta annálar | 4.1.2025 | 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GLEÐILEGT ÁR 2024
Ég óska öllum Guðs blessunar, gæfu og góðs gengis á hlaup-árinu 2024 um leið og ég þakka fyrir árið sem er að líða.
Annáll þessa árs er skrifaður í Orlando Florida.. en ég fór nokkrar ferðir erlendis til að hlaupa.. Ég var ákveðin að klára öll 50 fylkin í þriðja sinn á þessu ári.. Í ársbyrjun vantaði mig 13 fylki.. og ég fór 6 ferðir til þess að ná þeim.. Síðasta fylkið var Virginia. EN svo kom BÖMMER ársins.. eitt hlaupið var ekki samþykkt, það er á rauðu flaggi.. vegna hita var víst endalaust verið að láta hlaupara stytta vegalengdina og þeir sem fóru styst hlupu aðeins hálft maraþon.. vegna skorts á verðlaunapeningum fengu margir sem fóru hálft, pening fyrir heilt.. og svo var klúður í tímatökunni.. svo ég fékk póst frá 50 ríkja klúbbnum að ég verði að hlaupa þetta fylki aftur.. og það geri ég í mars.
Maraþonin á þessu ári urðu 16.. í fyrsta sinn í áratugi stytti ég niður í hálft maraþon í Reykjavík.. en þrátt fyrir fjölda pósta hef ég ekki komist í úrslitin í hálfu.
Ég gekk, skokkaði og hjólaði með Völu og synti á föstudögum með systrum mínum.
Vegna þessara utanlandsferða á milli þess sem ég var að leysa af í Vestmannaeyjum, Njarðvík og á Patró.. þá gekk ég hvorki á Esjuna eða Helgafellið mitt.. en ég náði Ratleiknum..
Maraþonin eru komin í 278 + 1 virtual
Ultra-hlaup 10, 9 Laugavegir og 1 Þingvallahlaup
Fylkin í 3ja hring um USA eru komin 49
maraþonlönd 27
Heimsálfur 5
4/6 Majors
GLEÐILEGT NÝTT HLAUPÁR
2024
Áramóta annálar | 1.1.2024 | 02:54 (breytt kl. 12:49) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GLEÐILEGT ÁR 2023
Ég óska öllum Guðs blessunar, gæfu og góðs gengis á árinu 2023 um leið og ég þakka fyrir árið sem er að líða.
Annáll þessa árs er, eins og í fyrra skrifaður heima í Hafnarfirði.
LOKSINS var sóttvarnar-takmörkunum aflétt og ég gat farið til USA að hlaupa.. Hello America, here I come.. Í fyrstu ferð flaug ég til Orlando og keyrði til Alabama og hljóp 1 maraþon.. Í apríl fór ég 2 maraþon, í maí tók ég aftur 2 og 3 í júní..
Ég átti síðan aðgang í júlí fyrir San Francisco en flugvélin lenti hér á CODE RED vegna bilunar og flugi frestað um sólarhring.. en þá var ferðin ónýt fyrir mér.. Ég skrifaði þeim út og fékk að hlaupa VIRTUAL.. Þessi aðgangur var síðan 2020 en Vala ætlaði með mér í þá ferð.. Við ætluðum að hlaupa 5 km saman daginn fyrir maraþonið.. Svo við Vala hlupum saman 5 km (virtual) á laugardeginum, og á sd hljóp ég rúmlega 20 hringi í kringum Hvaleyrarvatn fyrir maraþonið.. Síðasta maraþon ársins var síðan 1.okt í ferð okkar Völu til USA.
Ég átti aðgang í Tokyó maraþonið í mars 2020 en því var aflýst og ég gat fengið öruggt númer í mars 2021.. sem var frestað til 17.okt 2021.. því var aflýst og aðgangur minn fluttur til 5.mars 2023.. Það er sorglegt að segja frá því að ég þurfti að endurnýja aðganginn í nokkurra daga glugga, ég var erlendis þegar hann opnaðist en ég taldi að ég næði því þegar ég kæmi heim, en tímamunurinn við Japan var svo mikill að ég var KLST of sein.. Þetta var BÖMMER ársins.. ég sem komst inn í gegnum lottóið í 3ju tilraun og búin að eiga pöntuð hótel í 5 ár.. fer ekki til Tokyo..
Ég átti líka aðgang frá 2020 í Anchorage Alaska en það lenti á menningarnótt þetta árið og þennan dag hljóp ég ekki neitt vegna brúðkaups Lovísu og Gunnars.
Ég hjólaði, gekk og skokkaði með Völu, fór nokkrar ferðir á Helgafellið, tók ratleikinn með systrum og synti með þeim á föstudögum ef ég var á landinu.
Maraþonin eru komin í 262 + 1 virtual
Ultra-hlaup 10, 9 Laugavegir og 1 Þingvallahlaup
Fylkin í 3ja hring um USA eru komin 37
maraþonlönd 27
Heimsálfur 5
4/6 Majors
GLEÐILEGT NÝTT HLAUPÁR 2023
Áramóta annálar | 1.1.2023 | 11:13 (breytt kl. 11:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GLEÐILEGT ÁR 2022
Við óskum öllum Guðs blessunar, gæfu og góðs gengis á árinu 2022 um leið og við þökkum fyrir árið sem er að líða.
Annáll þessa árs er skrifaður heima í Hafnarfirði... og eins og í fyrra voru engin maraþon hlaupin, enda fór ég ekki erlendis og Reykjavíkurmaraþoni var aflýst annað árið í röð... en verðlaunahrúgan hér til hliðar er fyrir ,,virtual" hreyfingu.
Ég átti ferð til Japans í Tokyó maraþonið í mars 2020 en því var aflýst og ég gat fengið öruggt númer í mars 2021... sem var frestað til okt 2021... því var aflýst og aðgangur minn fluttur til 5.mars 2023...
Ég var prestur á Patró til 31.maí í ár, ég notaði tímann, hljóp og gekk... en það er hægara sagt en gert í svona ástandi að halda sér í formi en ég reyndi að hlaupa með Völu þegar ég fór suður... Ég sakna þess að vera ekki ráðin þangað þennan veturinn.
Lengi vel vonaði ég að Reykjavíkurmaraþon myndi verða... sem hefði ekki gagnast mér neitt, því ég ökklabraut mig á 17.júní... en því var aflýst...
Ég fór í augasteinaskipti 9.júní og var varla búin að jafna mig eftir það þegar ég ökklabrotnaði...
Ökklabrotið stal af mér sumrinu... því ég mátti ekki stíga í fótinn fyrstu 6 vikurnar og síðan rétt tilla í hann næstu 6v eða þangað til það var búið að taka skrúfurnar. Um leið og ég gat hökkt um á hækjunum reyndi ég að fara í gönguferðir um hverfið... og finna ratleiksspjöld sem voru amk ekki langt frá bílastæðum... Ég náði að finna 13 spjöld og fara aftur með barnabörnum að finna þau... Við urðum Léttfetar en til þess þarf að finna 9 spjöld.
Ég gekk hvorki á Helgafellið eða Esjuna né gekk Selvogsgötuna í ár.
Það eru komin rúm 2 ár síðan ég hljóp maraþon... staðan frá því áramótin 2019-2020 var svona og tölurnar hafa ekkert breyst.
Maraþonin eru ennþá 253
að auki, Ultra-hlaup 10
búin með 28 fylki í 3ja hring um USA
maraþonlönd 27
Heimsálfur 5
4/6 Majors
GLEÐILEGT NÝTT HLAUPÁR 2022
Áramóta annálar | 31.12.2021 | 12:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GLEÐILEGT ÁR 2021
Við óskum öllum Guðs blessunar, gæfu og góðs gengis á komandi ári 2021 um leið og við þökkum fyrir árið sem er að líða.
Annáll þessa árs er skrifaður á Patreksfirði... og hann verður öðruvísi en allir hinir. Það verður engin verðlaunapeningamynd hér til hliðar... því ég fór ekkert erlendis og hljóp EKKI EITT EINASTA MARAÞON á þessu ári þó árið væri HLAUPÁR. Ég átti að hlaupa Texas Marathon 1.jan 2020 en hætti við það að beiðni biskups. Í lok febrúar kom Covid-19 veiran sem var erfiðari viðureignar en flestir áttu von á og flestum maraþonum og íþróttaviðburðum í heiminum var aflýst eða frestað.
Ég átti ferð til Japans í Tokyó maraþonið í mars en því var aflýst og ég gat fengið öruggt númer í mars 2021... sem er nú búið að fresta til okt 2021.
Ég var ráðin á Patró til 31.maí í ár, ég notaði tímann þegar veður batnaði og gekk á Geirseyrarmúlann, upp að Kríuvötnum og á Hafnarmúlann með góðum konum. Eins reyndum við Lúlli að skoða okkur eitthvað um, en annars hljóp ég og gekk á Patró... það er hægara sagt en gert í svona ástandi að halda sér í formi en ég reyndi að hlaupa með Völu þegar ég fór suður.
Í júlí átti ég ferð til USA og tvö maraþon sem voru flutt til næsta árs, það var í San Fransisco og Anchorage Alaska. Lengi vel vonaði ég að Reykjavíkurmaraþon myndi verða en svo var því aflýst...
Ekki ráðum við við neitt svona, svo næsta skerf er að fylla tímann með einhverju öðru. Við systur tókum Ratleikinn, öll 27 spjöldin, Helgafellið var kysst oft og mörgum sinnum og ég gekk Selvogsgötuna tvisvar frá Kaldárseli.
Um sumarið halaði ég niður strava. Nokkrir vinir mínir í Marathon Globetrotters ákváðu að stofna ,,virtual" hlaupahóp og hlaupa í kringum Eystrasaltið. Við ætluðum að vera 3 mán að því en vorum bara um 50 daga... ég fór síðan að ganga myndir og set inn fyrstu myndina SNOOPY hérna... Mér tókst að draga fleiri í fjölskyldunni í þetta.
1.nóv fluttum við aftur vestur á Patró til vetursetu og ég hef reynt að fara út amk 5x í viku, helst að hlaupa 3x og ganga 2x en stundum hefur það snúist við vegna hálku.
Það er komið meira en ár síðan ég hljóp maraþon... staðan um síðustu áramót var svona og tölurnar hafa ekkert breyst.
Maraþonin eru orðin 253
að auki, Ultra-hlaup 10
búin með 28 fylki í 3ja hring um USA
maraþonlönd 27
Heimsálfur 5
4/6 Majors
GLEÐILEGT NÝTT HLAUPÁR 2021
Áramóta annálar | 30.12.2020 | 19:00 (breytt 18.3.2021 kl. 21:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
G L E Ð I L E G T Á R
Síðasti annáll var skrifaður í Thailandi, í ár ætlaði ég að skrifa hann í Texas, en vegna vinnu varð ég að hætta við þá ferð og skrifa annálinn því á Patreksfirði þar sem ég er settur prestur í vetur. Ekki var ég svo forsjál að taka mynd af verðlaunapeningum þess árs áður en ég keyrði vestur, svo myndin verður að bíða... en hún kemur.
Ég fór 9 hlaupaferðir erlendis á árinu og hljóp í allt 15 maraþon.
Ég bætti við 8 nýjum löndum, Indlandi, Kýpur, Tékkóslovakíu, Kambodiu, VétNam, Argentínu, Malasíu og Singapore... Argentína var um leið í nýrri heimsálfu fyrir mig.
Að sjálfsögðu hljóp ég nokkur (5) maraþon í USA, ég hitti í einni ferð á tvö einhver erfiðustu maraþon sem ég hef hlaupið og svo ætlaði ég að taka 4 maraþon í Heartland seríunni en varð að lúta í lægra haldi fjórða daginn í röð og láta mér nægja 10 km... þetta varð til þess að ég varð að fara aukaferð út til að ná því að Reykjavík yrði nr 250.
Aukaferðin var til Stevenage UK... off road and self navigated challenge through the picturesque Hertfordshire countryside around Stevenage og til þess að komast í gegnum það prentaði ég út 3 og hálfa bls af leiðbeiningum...
Í byrjun árs sá ég að það væri möguleiki fyrir mig að hlaupa maraþon nr 250 í Reykjavík... sem mér tókst síðan og er virkilega glöð að hafa fengið 250 sem keppnisnúmer, en ég hljóp heilt maraþon þar 23.árið í röð.
Síðasta maraþon ársins hljóp ég í Singapore á 63 ára afmælisdaginn minn.
Maraþonin eru orðin 253
búin með 28 fylki í 3ja hring um USA
maraþonlönd 27
Heimsálfur 5
4/6 Majors
GLEÐILEGT NÝTT HLAUPÁR 2020
Áramóta annálar | 31.12.2019 | 09:00 (breytt 10.12.2020 kl. 13:48) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GLEÐILEGT HLAUPÁR 2019
Þetta ár var að mörgu leyti öðruvísi en undanfarin ár. Ég fór í 10 hlaupaferðir á árinu. Eins og í fyrra fór ég 16 maraþon á árinu. Það vita allir hvað ég elska Ameríku en í ár hljóp ég út um allt, Egyptalandi, Dubai, Jerúsalem, París, Liverpool, Berlín, Cúbu, Panama og Thailandi. Ég hef verið kærulaus gagnvart heimsálfunum... en í Janúar bætti ég tveimur heimsálfum við, Asíu og Afríku.
Auðvitað sleppti ég ekki Ameríku alveg... þar duttu 5 maraþon inn, fyrir utan Cubu og Panama sem fylgja þeirri heimsálfu. Ég tók aðeins þátt í einni seríu, Prairie (4 maraþon á 6 dögum)... ég veit það, ég er að verða gömul. Ég sagði í síðasta annáli að ég hafi verið hætt að fara maraþon 2 daga í röð en ég braut það auðvitað aftur og fór í Prairie seríunni maraþon 3 daga í röð í skelfilegri hitabylgju...
Nýju evrópulöndin eru Ísrael, Frakkland og Þýskaland. Þá hljóp ég 2 RnR maraþon... í Bítlaborginni Liverpool Englandi og í San Diego Californíu... en það var sérstaklega gaman að Vala skildi hlaupa 5 km með mér daginn áður í San Diego.
Að sjálfsögðu hljóp ég heilt maraþon í Reykjavík... 22.árið í röð og ég tel það með mínum maraþonum þrátt fyrir yfirlýsingu frá RM að það hafi mælst of stutt... það mældist 400 m of langt á mínu Garmin úri... og svo hljóp ég Vor-maraþonið.
Tvisvar sinnum upplifði ég ótrúlegar andstæður, í jan í Egyptalandi/Dubai og svo í nóv á Cubu/Panama... fátækt v ríkidæmi og svo er maður óvanur hinum mikla vopnaburði eins og í Egyptalandi og Jerúsalem.
Síðasta maraþon ársins var svo í Chiang Mai Thailandi... þar sem við eyddum jólum og áramótum líka.
Maraþonin eru orðin 238
vantar 2 fylki upp á hálfan 3ja hring um USA
maraþonlönd 19
Heimsálfur 4
4/6 Majors
GLEÐILEGT NÝTT HLAUPÁR
Áramóta annálar | 31.12.2018 | 16:16 (breytt 28.1.2019 kl. 18:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GLEÐILEGT HLAUP-ÁR 2018
Annállinn er að þessu sinni sendur út hér heima... Það er ekki hægt að segja annað en að árið 2017 hafi verið viðburðarríkt hlaupaár hjá mér. Ég fór 16 maraþon á árinu. Fyrsta maraþonið var á Nýjársdag í Texas og í næstu ferð hljóp ég 3 maraþon á tveimur af eyjum Hawaii, eitt á Maui og tvö á Kauai. Janúar var því fullbókaður... með 4 maraþon... þar af voru 3 maraþon á 6 dögum.
Ég tók þátt í þrem seríum hjá Mainly Marathons, Aloha- Praire- og Northwest seríunum, tvö maraþon í hvert skipti. Eins og allir vita er maraþon rúmir 42 km og því er skemmtilegt að segja frá því að í janúar þegar ég var á Hawaii borgaði ég mig inn í hlaup í Praire seríunni 17.júlí... en þá var 42 ára brúðkaupsafmæli okkar Lúlla... og ég bað um að fá og fékk síðan keppnisnúmer 42.
HOW COOL IS THAT... en hver einasti nörd veit að 42 eru svarið við ÖLLU.
https://www.youtube.com/watch?v=aboZctrHfK8
Ég var hætt að hlaupa maraþon tvo daga í röð en það gerðist nú samt 17. og 18.júlí...
Þá tók ég 3 maraþon í Rock´N´Roll seríunni á þessu ári, Nashville, Savannah og Lissabon. Já, Evrópa er að sigla sterkt inn í hlaupin hjá mér. Þetta árið fórum við Lúlli tvisvar til Evrópu, til Rómar og Lissabon. Það var ótrúlega skemmtilegt að heimsækja þessar gömlu borgir sem eiga mikla og langa sögu.
Að sjálfsögðu hljóp ég heilt maraþon í Reykjavík... 21.árið í röð og það verður hefð að hlaupa það ef ég er á landinu.
Síðasta maraþon ársins var í Florida, Space Coast Marathon og rosalega gaman að Lovísa kom með, hljóp hálft maraþon í fyrsta sinn og gekk rosalega vel. Edda og Berghildur voru á hliðarlínunni þetta árið.
16 maraþon á árinu... það voru fáir mánuðir sem ég sleppti úr en ég hljóp ekki maraþon í febrúar, júní og desember.
Maraþonin eru orðin 222 talsins.
GLEÐILEGT NÝTT HLAUP ÁR
Áramóta annálar | 28.12.2017 | 22:16 (breytt 31.12.2017 kl. 21:06) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
GLEÐILEGT HLAUPÁR 2017
Annállinn er annað árið í röð sendur út frá Texas.... Þetta ár var viðburðarríkt þó ég færi ekkert sérstaklega mörg maraþon. Ég er enn að kljást við eins meiðsli og ég fékk í Baton Rouge í Louisiana í jan 2015.
Þá gerðist eitthvað á vinsta fæti en það undarlegasta sem hefur komið fyrir mig er að meiðslin skiptu um fót þegar ég fór eitt af erfiðustu brekku maraþonum sem ég hef farið (Red Rock Canyon Marathon LV) í febr á þessu ári. Síðan þá hefur vinstri fótur verið í lagi en sá hægri stífur um ökkla og hlýðir ekki alveg. Sem betur fer er ég ekki með verki nema stöku sinnum eftir löng hlaup og hálf hölt... sérstaklega ef ég þarf að flýta mér.
Ég byrjaði HLAUP-árið 2016 í Texas, hljóp Texas Marathon í 3ja sinn, en það er alltaf á nýjársdag og svo Mississippi Blues Marathonið nokkrum dögum síðar, líka í 3ja sinn. Þetta varð eina ferðin á árinu sem ég fór tvö maraþon.
Í mars ætlaði ég að taka tvö maraþon í Dust Bowl seríunni en þá lentum við í að vera veðurteppt í Denver og ófærð með tilheyrandi óveðri, kulda og veseni varð til þess að ég sleppti seinna maraþoninu þó mig vantaði fylkið... en í Ulysses Kansas fór ég mitt 200asta maraþon.
Eftir að hafa beðið í HEILT ÁR eftir að komast í gönguferðina í Grand Canyon, þá varð draumurinn að veruleika í lok maí. Við vorum fjórar, ég, Vala, Edda og Berghildur sem gengum niður South Kaibab Trail með allt á bakinu, gistum á botninum á Bright Angel Campground og gengum upp Bright Angel Trail daginn eftir.... hvílíkt ævintýri.
https://www.youtube.com/watch?v=Br8STgrH4LY
í þessari sömu ferð hljóp ég síðasta fylkið (Montana) í annarri umferð um USA.
Reykjavíkurmaraþon markaði tímamót hjá mér í ár þegar ég hljóp HEILT maraþon þar TUTTUGASTA árið í röð... Viku seinna var Stavanger Maraþon en þar skipti ég niður í hálft maraþon í miðju hlaupi út af fætinum, svo Noregur er enn eftir :)
Ég fór 10 maraþon á árinu, átta af þeim í USA... í sjö ferðum. Þegar 2 umferðum var náð, taldi ég að gamni mínu hvað ég ætti mörg fylki fyrir þriðju umferð og þau eru 10 talsins. Þess vegna er freistandi að velja framvegis maraþon í takt við það þó markmiðið sé ekki sem stendur að taka þriðja hringinn.
Eftir að hafa náð tveim umferðum um USA, taldi Bíðari nr 1 ekki hægt annað en að leita upprunans og fara hið eina sanna maraþon í Grikklandi. Sú ferð heppnaðist mjög vel og er sennilega upphafið að fleiri Evrópuferðum.
Síðasta maraþon ársins var í systraferðinni til Orlando í lok nóv... Space Coast Marathon á Cocoa Beach. Þetta er fjórða árið í röð sem við förum og eitt ár eftir til að eignast alla geimskutlu verðlauna seríuna. Þetta er þriðja árið sem Berghildur og Edda fara hálft maraþon. Frábært hjá þeim.
GLEÐILEGT HLAUPÁR 2017
Áramóta annálar | 31.12.2016 | 13:24 (breytt kl. 13:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleðilegt nýtt HLAUP-ÁR 2016
Þetta árið var ferðast eftir ákveðnu plani... ég hafði sett stefnuna á að klára annan hring um USA... og valdi ég mér því hlaup eftir fylkjum... svo ákvað ég að hlaupa 5 Rock N Roll maraþon á árinu og maraþon nr 200 í Texas 1.jan 2016.
Ég byrjaði árið í Baton Rouge í Louisiana... og fékk þar meiðsli á vinstri fót, meiðsli sem ég er enn að takast á við. Lengi vel gat ég ekki staðsett hvort ég væri meidd á ökkla eða hæl en meiðslin eru aftan á hælnum. Þessi meiðsli hafa samt ekki orðið til að ég hætti við hlaup... ég minnkaði æfingar en hélt minni ferða-áætlun og fór m.a. til Hawaii í mars og Alaska í júní... en það eru fjarlægustu fylkin...
þá var ég búin að ákveða gönguferð niður í Grand Canyon í júní en varð að láta mér nægja að skoða gljúfrið ofanfrá... það verður að ÆFA fyrir slíkt ævintýri og fóturinn bauð ekki upp á nema algjört lágmark þetta árið.
Ég fór 10 ferðir til USA, oftast ein og gat krossað við 9 fylki. Ég hljóp 14 maraþon og 2 hálf-maraþon á þessu ári og í Savannah hljóp ég líka 5km bara að gamni mínu. Tvö þessara maraþona voru hér heima, Reykjavíkurmaraþon og Haust-maraþonið.
Áætlanir mínar um að hlaupa tvö-hundraðasta maraþonið í Texas á nýjársdag fóru út um þúfur.
Í byrjun nóv, í Savannah í Georgíu var hitabylgja og af öryggisástæðum var heila maraþonið stoppað og öllum beint í mark og ég hlaup þá bara hálft maraþon...
Í systraferðinni í lok nóv var ég hálf-veik og ákvað að láta hálft maraþon nægja í það sinnið, við hlupum því allar hálft maraþon... svo tvær ferðir skiluðu bara hálfum maraþonum.
Maraþonin eru orðin 196 og tvö-hundraðasta maraþonið er núna áætlað í Ulysses í Kansas í Dust Bowl hlaupa-seríunni.
Um áramótin á ég eftir 4 fylki til að klára annan hring, KS og NM í mars, ID í apríl og MT í júní... og ég sem taldi einu sinni að ég hefði engan möguleika á að komast einn hring.
Áramóta annálar | 31.12.2015 | 14:05 (breytt kl. 14:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)