Space Coast Marathon 26.nóv 2017

Space Coast Marathon & Half Marathon
Space Coast Marathon 2017Cocoa Beach, FL USA
26.nóv 2017

http://www.spacecoastmarathon.com

Við keyrðum frá Orlando til Cocoa Beach í gær og sóttum gögnin fyrir maraþonið í leiðinni. Við komum okkur fyrir á Days Inn, fórum út að borða, tókum saman hlaupadótið og fórum snemma að sofa. 

Klukkan vakti okkur Lovísu kl 2:30 en Berghildur og Edda áttu að geta sofið lengur, þær hlaupa ekki í þessari ferð.

20171126_Space Coast MarathonEftir hefðbundinn undirbúning sóttum við poka m/morgunmat, löbbuðum síðan yfir á Best Western til að taka rútuna á startið. Fyrsta rúta átti að fara 4:15 en var hálftíma of sein. Við komum um kl 5 á startið. Það var aðeins köld gola á meðan það var myrkur.

Maraþonið var ræst kl 6:30... Ég held ég hafi aldrei áður farið eins þreytt og lítið sofin í maraþon og nú... Við erum báðar skráðar í heilt en Lovísa ætlar að hætta eftir hálft. Við misstum fljótlega af hvor annarri eða þegar ég fór á klósettið - Lovísa var líka fljótari. Það var hlýtt úti og eftir að sólin kom upp var mjög heitt.

20171126_Space Coast MarathonFyrri hluti leiðarinnar er norður og veghallinn meiri en í neðri hlutanum en báðir leggir eru fram og til baka. Ég hitti ótrúlega marga hlaupa-brjálæðinga á leiðinni og náði ekki alltaf að taka myndir af þeim. Ég þekkti leiðina nákvæmlega enda fimmta árið í röð sem ég hleyp hérna.

Lovísa kláraði hálfa á flottum tíma en ég strögglaði við heila í steikjandi sól. Ég tók eitthvað af myndum í bakaleiðinni og hékk eitthvað í Galloway-hópum. Ég lenti í vandræðum á miðri leið þegar 10cm saumspretta kom á hlaupabuxurnar, ég áttaði mig ekki á hvað hafði gerst fyrr en mig var farið að svíða af nuddinu. Sem betur fer var ég í hlaupapilsi með áföstum stuttbuxum þannig að ég gat togað skálmina niður yfir nuddsvæðið og nælt hana fasta... og uþb á mílu 17 var ég farin að finna fyrir krampa framan á hægra læri og varð að vanda mig hvernig ég hljóp en í markið komst ég og er bara ánægð með mig.

20171126_Space Coast MarathonMér fannst miklu færri vera í brautinni en vanalega og einhvern veginn daufara yfirbragð yfir seinni hlutanum. Kannski hefur óveðrið sem gekk yfir í síðasta mánuði þegar nokkur hótel skemmdust og eru enn lokuð vegna viðgerða, haft einhver áhrif... 

Þetta maraþon er nr 222
Garmurinn mældi tímann 6:17:47

og vegalengdina 42,70 km


Hreyfing í nóvember 2017

Nóvember mánuður byrjaði á maraþoni. Ég fór ein út, flaug til Orlando og keyrði til Savannah í Georgíu. Þegar ég kom heim byrjaði að snjóa og ég fékk að nota hlaupabrettið hjá Völu. Mánuðurinn mun síðan enda á síðasta maraþoni þessa árs hjá mér þegar ég hleyp Space Coast Marathon (26.nóv) í fimmta sinn.

 1.nóv... 16,4 km hjól m/Völu  
 4.nóv... RnR Savannah Marathon GA 42,67 km
 5.nóv... 5 km skemmtiskokk í Savannah GA
 8.nóv... 5 km skokk á bretti m/Völu
10.nóv... 1200m skriðsund
13.nóv... 8 km á bretti m/Völu
15.nóv... 6 km á bretti m/Völu
17.nóv... 1 km skriðsund
20.nóv... 6 km á bretti með Völu
22.nóv... 3 km á bretti hjá Völu... flug út á morgun.
26.nóv... Space Coast Marathon Cocoa Beach FL 42,7 km
29.nóv... 2 km göngubretti með Völu :)


5 km í Daffin Park, RnR Savannah Remix 5.nóv 2017

20171105_5k savannah 5.11.20175k RnR Savannah
Remix Challenge, Daffin Park

5. nóv 2017
Þó ég væri stirð og með rosaleg brunasár af fötunum í maraþoninu í gær... þá svaf ég ágætlega. Ég komst ekki í sturtu fyrr en eftir marga klukkutíma. Yfirleitt eru þau fljót að loka sér en ég var enn með sár í morgun.

Ég var mætt 2 tímum áður til að fá stæði. Í morgun var þoka og 18°c hiti en rétt áður en hlaupið var ræst var hitinn kominn í 80°F.

20171105_5k savannah 5.11.2017Hlaupið var ræst kl 1 eh og ég var þokkaleg eftir gærdaginn. 

Af því að ég hljóp líka í gær fekk ég auka verðlaunapening... remix challenge gítar.


RnR marathon Savannah GA 4.nóv 2017

RnR Marathon Savannah
RnR


4.nóv 2017

http://www.runrocknroll.com/savannah/

20171103 RnR Savannah 4.nóv 2017Ég keyrði til Savannah og sótti númerin fyrir bæði hlaupin í gær. Expoið var ágætt. Síðan var ekkert annað að gera en versla aðeins, taka saman hlaupadótið og fara snemma að sofa... eða kl 18

Klukkan var stillt á 3am... þá var hitastigið 15°c... það er hitaviðvörun í gangi fyrir hlaupið... en eftir að hafa fengið mér að borða, hringt heim í bíðarann og annan hefðbundinn undirbúning - var ég tilbúin og lagði af stað kl 4:45

Ég lagði bílnum við Convention Center og tók ferju yfir á startið. Af því að ég var snemma í því fann ég bekk til að sitja á í ca klst.

Maraþonið var ræst kl.7:20. Það var strax orðið heitt og fljótlega farnir að detta dropar af derinu af rakanum. Ég passaði mig að drekka vel, borða gel og salt og fara ekki fram úr mér í hitanum. 

20171104_140807Ég var hérna síðast hér fyrir 2 árum og þá var einmitt hitabylgja, lokað á heilt og öllum skipað að fara hálft maraþon. Ég frétti núna að tveir hefðu dáið í því hlaupi en ekki einn eins og ég vissi þá. Nú stendur öllum til boða að skipta í hálft... og betri viðbúnaður heldur en síðast.

Hitinn hækkaði og var að ég held mestur 86°F. Þetta þýddi að fólk fór að ganga meira. Ég hægði á mér, gekk brekkur og síðustu þrjár mílurnar. Ég heyri stjórnandann segja að það væru 300 manns í brautinni á eftir mér.

Þetta maraþon er nr 221 (póstnúmerið á Völlunum) 

Garmurinn mældi tímann 6:24:41
og vegalengdina 42,67 km

Stóri peningurinn er fyrir Marathon Challenge sem ég tók þátt í.


Hreyfing í okt 2017

Veðrið í haust hefur verið ágætt... amk það sem ég man og ég er alltaf léleg að muna veður aftur í tímann. Ég hef haldið mig við stuttu hringina mína, hjólað með Völu og synt með systrunum... Helgafellið gæti haldist aðeins lengur inni ef það snjóar ekki á næstunni.

 2.okt... 6 km skokk (Ástjörn m/meiru) og 16,4 km hjól með Völu
 4.okt... 16,4 km hjól m/Völu
 5.okt... 6 km skokk um Ástjörn
 7.okt... 6 km skokk um Ástjörn og 1200 m skriðsund
 9.okt... 6 km um Ástjörn og 16,4 km hjól m/Völu
15.okt... Maratona DE Lisboa Portugal... 42,21 km
19.okt... 6 km skokk um Ástjörn og 16,4km hjól m/Völu
20.okt... 1200m skriðsund
23.okt... 10,8 km skokk um Hvaleyrarvatn + 10 km hjól og
             16,4 km hjól m/Völu
24.okt... Esjan upp á topp, 7,8 km ganga - 3:15
25.okt... 16,4 km hjól m/Völu
26.okt... 6 km kringum Ástjörn og fl. 
27.okt... 1200 m skrið
30.okt... 6 km skokk um Ástjörn


R'N'R Maratona De Lisboa 15.okt 2017

Rock n Roll Maratona de Lisboa

15.okt 2017

http://www.runrocknroll.com/lisbon

Við sóttum númerið sl fimmtudag og tókum það frekar rólega í gær, föstudag. Lissabon er byggð utaní hæð og tómar brekkur hér í gamla bænum. Air-B&B-hellirinn okkar er mjög vel staðsettur fyrir markið... og það er lest á startið.

Klukkan hringdi kl 4 en ég hafði varla sofið. Ég var tilbúin að fara 5:30. Það var um 1,3 km ganga í lestina og ég var heppin að fá sæti því ferðin tók 40 mín og svo var 10 mín ganga á startið.

Ég var enn í klósettröðinni kl 8 þegar var startað og það stressaði mig ótrúlega... ég fór of hratt af stað og svo byrjuðum við á brekku.

Mér gekk ekki vel í þessu maraþoni og langað mest allan tímann að hætta, brautin lítið spennandi en kannski erfitt að velja aðra nema bæta við brekkum... en Guð sendi mér viljastyrk til að klára þetta. Hitinn rauk upp, var 23°c í hupphafi og 32°c á símanum hjá Lúlla þegar ég kom í mark. Ég neyddist til að ganga meira en helminginn og þá fæ ég í bakið.

Ég var síðust í maraþoninu, með sjúkrabíl, rútu og tvö lögregluhjól sem fylgdu mér og öðru hverju var suðað í mér að hætta. Þegar ég kom loksins í mark var búið að slökkva á mark klukkunni svo ég varð að sýna þeim úrið mitt til að fá tímann viðurkenndan... og finna út byssutíma.

Þetta maraþon er nr 220 (póstnúmer Hfj)
Garmin mældi vegalengdina 42,21
og tímann um 7 klst...
tíminn samkvæmt úrslitum var 07:03:55 - Chip: 06:59:38


Hreyfing í sept 2017

Mánuðurinn byrjaði erlendis. Við flugum til Seattle með millilendingu í Minneapolis, gistum í Seattle eina nótt og keyrðum mest allan næsta dag til Pendleton OR. Ég hljóp 2 maraþon í nýrri seríu, NorthWest hjá Mainly Marathons.

 2.sept... 3 km ganga í Pendleton OR með Sharon
 3.sept... NorthWest Series #2 Pendleton OR... 43,3 km
 5.sept... 3 km ganga í brautinni í Washington State.
 6.sept... NorthWest Series #5 Lewiston ID.... 43,45 Km
 9.sept... Helgafell, 5,4km ganga m/Lovísu og krökkunum, ég var hestur
11.sept... 25,55 km ganga í hrauni (3 spjöld) var 10 klst 
13.sept... 16,4 km hjól m/Völu
14.sept... 6 km skokk í bænum
18.sept... 12,3 km skokk, gamli Hrafnistuhringurinn minn :)
20.sept... 16,5 km hjól m/Völu 
21.sept... 8,1 km skokk, frá sjúkraþj. Hrafnista
22.sept... 6 km skokk kringum Ástjörn og 1200m skriðsund.
25.sept... 6 km skokk um Ástjörn, hífandi rok og 16,5 km hjól m/Völu.
26.sept... 12,32 km, skokkaði gamla Hrafnistuhringinn
27.sept... 16,4 km hjól m/Völu
28.sept... 8,1 km skokk, frá Sjúkraþjálfaranum
29.sept... Helgafell 5 km ganga og 1200m skriðsund.
 


NorthWest Series #5 Lewiston ID, 6.sept 2017

titleNWidaho

NorthWest Series, dagur 5, Lewiston ID
6.sept 2017

http://mainlymarathons.com/series-3/northwest/idaho

Við fundum nokkurn veginn rétta staðinn daginn áður... Það er í Hells Gate State Park... hinumegin við ána. Það eru uþb 10 km frá hótelinu. Við ákváðum að Bíðari nr 1 myndi bíða á hótelinu, úti er reykjarmökkur í loftinu vegna skógarelda allt í kringum okkur og skyggni lítið. Ég fékk að hafa herbergið til kl 12.

Ég er enn með sama númerið, nr. 19

Lewiston ID 6.9.2017Klukkan var stillt á 2 am... ég þarf að leggja af stað 3:15
Ég náði á mátulegum tíma fyrir startið kl 4 am. Hlaupið var á göngustíg 14x sama leiðin fram og til baka. Skógarstígar eru oft mjög mishæðóttir og erfiðir og enn verri í myrkri. Ég eyddi mikilli orku í þessa 3 tíma sem var myrkur en hvað gerir maður ekki til að sleppa við hitann að deginum. Þegar sólin kom upp var hún eldrauð en ég gat ómögulega náð litnum á mynd.

Lewiston ID 6.9.2017Það var nær sama fólkið í dag og í Oregon um daginn. Ég slapp við að detta en rak tærnar nokkrum sinnum í. Á leiðinni var þvottabjörn í tré og við göngustíginn var hind með kálf.

Mér gekk bara vel, var aðeins stirð eftir síðasta maraþon því æfingaplön hafa ekki verið að þvælast fyrir mér síðustu ár.

Þetta maraþon er nr. 219
Garmurinn minn mældi tímann 6:38:00 og vegalengdina 43,45 km 


NorthWest Series #2, Pendleton OR, 3.sept 2017

titleNWoregon
NorthWest Series, dagur 2, Pendleton OR
3.sept 2017

http://mainlymarathons.com/series-3/northwest/oregon

Við mættum á svæðið daginn áður og sóttum númerið. Ég er nr 19. Ég hitti fullt af brjálæðingum sem taka alla 6 dagana. Ég gekk með Sharon eina bunu í brautinni. Við Lúlli fengum okkur síðan að borða og tókum það rólega.

NorthWest Series Pendleton 3.sept 2017Ég fór fyrir tilviljun í póstinn minn og sá þá að það var búið að bæta við EXTRA EARLY START kl 4 am... enda er spáð gífurlegum hita á þessu svæði... fólk er hvatt til að vera inni sem mest. Klukkan var því stillt á 2:30 am til að vera tilbúin og mætt á svæðið fyrir kl 4 am.

Við byrjuðum í niðamyrkri, en höfuðljósin nægja alls ekki til að sýna allar misfellur... ég datt kylliflöt á gangstéttinni í fyrstu ferð, þegar 300m voru eftir af brautinni. Ég eyddi þvílíkri orku þessa 3 tíma áður en birti. 

20170903_104404Brautin var fram og tilbaka 14 ferðir og þegar birti gat ég farið að taka myndir af mér með þessu kolbrjálaða fólki. Hitinn ágerðist og þá var erfitt að drekka hvorki of mikið eða lítið. Ég stoppaði 6 sinnum til að teygja og fór 3svar á klósettið fyrir utan að það tók smá tíma að kíkja á sárin þegar ég datt.

Þetta maraþon er nr. 218
Ég get ekki annað en verið sátt frammistöðuna í dag... þrátt fyrir allt.
Garmin mældi tímann 6:33:00 og vegalengdina 43,3km


Reykjavíkur Maraþon 19.ág 2017

RMI-2017-LOGO-DAGSETNING

 

 

 

 

 

 

 

http://marathon.is/reykjavikurmaraton

Ég sótti gögnin kl 2 eða um leið og opnaði. Veðrið var dásamlegt og þónokkur mannfjöldi sem beið fyrir utan. Mér hafði verið boðið í sér teiti heiðursmanna klúbbsins kl 3 sem ég ætlaði ekkert endilega að sækja en endaði á að gera. Þar hitti ég nokkra gamla hlaupara.
Ég er nr 1505 þetta árið. Ég hitti Lovísu sem var að sækja sitt númer en Svavar sótti sitt í gær, þau ætla bæði 10 km.

Reykjavíkurmaraþon 19.8.2017Ég gerði þau mistök að fara of seint að sofa, þá stressast ég svo upp yfir því að sofna ekki strax að mér finnst ég "sofa vakandi" þ.e. hvílast ekkert. Mér finnst svolítið fyndið að upplifa svona núna með öll þessi maraþon á bakinu. Eitthvað hef ég sofið. því mig dreymdi að ég hefði misst af MM-hópmyndatökunni, væri of sein í startið, svo var búið að færa startið, í miðju hlaupi týndi ég leiðinni og hlaupaúrinu... hehe... einhverntíma hefði þetta kallast martröð. Hvað um það - ég vaknaði dauðþreytt.

Klukkan var stillt á 5:20 og ég var búin að taka til nýja tegund af morgunmat... vegan spagetti-rétt úr Costco. Það kom ágætlega út og var góð fylling í magann. Eftir að hafa græjað mig eða um 7:20 keyrðum við í Reykjavík, ágætt að vera tímanlega þegar allar götur eru lokaðar og amk 1,5km ganga á startið. Hópmyndataka Marathon Maniacs á að vera 8:10- 8:15. Við náðum ekki öllum MM á myndina - einhverjir að taka "síðasta piss"

Hlaupið var ræst 8:40 og ég passaði mig að fara rólega af stað. Veðrið var dásamlega gott og allir svo ánægðir sem maður hitti. Eins og venjulega hljóp ég með símann og tók myndir. 

Reykjavík 19.8 2017Tveir heimsmethafar voru í brautinni, Eddie Vega frá USA á tvö met í heimsmetabók Guinness, annað fyrir að hafa hlaupið berfættur í öllum fylkjum USA og hitt fyrir yfir 100 maraþon berfættur. Hinn heimsmethafinn er Dan frá Bretlandi. Hann á metið fyrir að hafa hlaupið maraþon í flestum löndum á einu ári (55).

Það var virkilega gaman að hitta þá MM sem komu núna en nú er verið að undirbúa REUNION fyrir MM á næsta ári og þá má búast við um og yfir 100 manns.

Ég er mjög ánægð með þetta maraþon, Lúlli hjólaði í námunda við mig síðustu 12 km... mér gekk bara vel þó ég hafi aðeins verið að berjast við krampa framan á lærum síðustu km. 

Þetta maraþon er nr 217
21. heila maraþonið í röð í Reykjavík
Garmin mældi leiðina 42,63 km og tímann 5:50:59

Lovísu og Svavari gekk líka vel í sínum vegalengdum :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband