Færsluflokkur: Íþróttir
Eftir að hafa setið við tölvuna og brunnið yfir á ,,nenninu" að læra, þá ákvað ég að hlaupa upp í Ásland, hafði þef af súkkulaðiköku þar
Það er löng brekka þangað upp... og maður á virkilega skilið að fá kökusneið á toppnum, en það var enginn heima
Ég tók því smá aukahring og fór í kringum Ástjörnina á leiðinni heim og verð að setjast aftur við tölvuna og skrifa þessa blessuðu ritgerð.
Þessi ,,nenni ekki að læra" hringur var 6,6 km
Ég hitti svo Soffíu kl 10 á morgun við Lækjarskóla.
Íþróttir | 15.9.2010 | 16:54 (breytt kl. 16:57) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Einn kennari var veikur í morgun og var svo vinsamlegur að láta vita af því í gær... svo ég skellti mér snemma út. Veðrið var ágætt, það var hlýtt en svolítið rok. Ég ákvað að fara langt því helgarhlaupið var styttra en ég hafði ætlað. Ég kom við hjá Völu og lét hana vita að ég væri að svíkja hana en hún var ekki viss hvort hún myndi hlaupa eftir vinnu... svo þetta var bara snilld.
Garðabær hinn meiri er 20 km.
Íþróttir | 14.9.2010 | 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var grenjandi rigning þegar ég fór út um kl 10 í morgun. Ég hljóp upp í Áslandið til Tinnu, hún ætlaði að hjóla með mér. Við tókum hring um Áslandið, fórum niður Kinnarnar, hring um Setbergið, eftir Álfaskeiðinu, fórum hring um Norðurbæinn, framhjá Hrafnistu og meðfram sjónum á leiðinni heim.
Þetta varð að meiriháttar menningarferð um leið, þar sem ég þurfti að svar HEILMÖRGUM spurningum á leiðinni. Við skoðuðum gömlu myndirnar við göngustíginn meðfram sjónum og gullfiskana, ísl hænurnar og kanínurnar hjá Fjörukránni... Þegar um km var eftir heim snarstoppaði Tinna til að leita að 4 laufa smára... hún fann TVO á svipstundu og EINN 5 laufa... Ég átti ekki til eitt aukatekið
Ég hefði viljað fara 20 km en hringurinn varð bara 15,5 km
Íþróttir | 11.9.2010 | 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég drattaðist út í morgun... nei, ég segi svona, því ég var ekkert sérlega upprifin. Þar sem ég var ein á ferð byrjaði ég brekkuhringinn með hring utanum Holtið, fór þaðan niður að Lækjarskóla, Áslandsbrekkurnar og hring um Ástjörnina á leiðinni heim. Veðrið var ágætt, miklu heitara úti en ég hélt það væri.
Eftir skólann tók ég síðan 2 spjöld í ratleiknum með stóru systur
Brekkuhringur 10,7 km og ca 3 km ganga í dag
Íþróttir | 9.9.2010 | 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vala komst ekki svo ég hljóp strax eftir skólann... Ég er alvarlega að hugsa um að skipta þriðjudeginum út, því skóladagurinn er frá 8-3 en ég á frí bæði á mánudögum og miðvikudögum.
Veðrið var ágætt... svolítið rok en ég hafði þetta dauðþreytt eftir daginn.
Hrafnistuhringur 12,5 km
Íþróttir | 7.9.2010 | 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef ekki hlaupið síðan á þriðjudaginn... skólinn og flutningar heimasætunnar upp í Grafarvog (á enda veraldar) urðu til þess að hlaupin frestuðust.
Fyrsta vikan í skólanum er kanski ekki svo erfið en það eru bókakaup, stofu-skiptingar og hlaup á milli bygginga.
Þar sem dæturnar eru fluttar úr Keflavík nennti ég ekki að keyra suðureftir til að hlaupa Suðurnesja-hálf maraþon og hljóp FRÍTT Garðabæ hinn meiri með lengingu bak við Haukahúsið.
Veðrið var leiðinda rigningarsuddi og rok, oft blessunalega í bakið en síðustu 5 km voru strekkingur á móti.
Hringurinn var 20 km
Íþróttir | 4.9.2010 | 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það var lengsti dagurinn í skólanum... frá 8-3... ég kom dauðþreytt heim. Þá tók kökuilmurinn á móti mér... maðurinn hafði gerst myndarlegur, bakað og þvegið þvott.
Ég hringdi í Völu - upprifin því það er svo langt síðan við höfum hlaupið saman... en ég var varla lögð af stað þegar ég dró lappirnar á eftir mér - Ó boj, þetta leit ekki vel út fyrir Völu - að draga mig hringinn.
En hún er svo góð við mig ... og ég þraukaði alla leiðina... Við fengum ágætis veður allan Hrafnistuhringinn 12,5 km
Íþróttir | 31.8.2010 | 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það var sannkallaður brekkudagur í dag... Tinna (9 ára) hringdi og spurði: amma getum við gert eitthvað saman... Ég spurði hvort hún vildi hjóla með mér - ég var að fara út að hlaupa. Já, hún vildi það... ég byrjaði því á brekkunum upp í Ásland heim til hennar, þaðan fórum við í kirkjugarðinn og ,,heimsóttum" bróður minn, hring í Setberginu þar sem við hlupum hjá læknum og gegnum öll undirgöng sem við sáum, hring um bæinn og upp í Áslandið aftur í gegnum Hvammana... frábært og ég alltaf á eftir henni hjólandi. Við fengum rigningu, rok og sæmilegt inn á milli ... ég fór síðan í kringum Ástjörnina á leiðinni heim.
Hringurinn varð 14,6 km
Íþróttir | 29.8.2010 | 21:47 (breytt kl. 21:49) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Ég hef ,,hvílt" í viku eftir Reykjavíkurmaraþon... það þýðir að ég hef ekki hlaupið... en bara gert meira af öllu öðru. Ég hef verið með Matthías litla í göngutúrum, með Tinnu í Ratleik og Berghildi í berjamó...
Í gær keypti ég mér hjól... það er bara spennandi. Eftir hádegið í dag fór ég á Esjuna með Helgu, Hörpu og Soffíu og eftir kvöldmat hjólaði ég um Áslandið með Tinnu.
Nú er komið að því að ég drífi hlaupaskóna fram og tölti af stað... á morgun
Íþróttir | 28.8.2010 | 23:37 (breytt 29.8.2010 kl. 12:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Við sóttum gögnin um 4 leytið í gær, skoðuðum íþróttatilboðin og fylltum vömbina af pasta. Maður hittir alltaf fullt af fólki og fær fréttir hvað hver er að gera
Við náðum í gögnin fyrir soninn líka því hann ætlar að fara 10 km. Glæsilegt hjá honum
Ég reyndi að fara snemma að sofa en það tókst ekki... var að glápa fram eftir öllu á sjónvarpið.

Ég lét síðan klukkuna vekja mig kl 6... vá, hvað ég er orðin kærulaus... þá fyrst las ég að maraþonið ætti að vera ræst kl 8:40... í stað kl. 9... Hvar endar þetta hjá mér??? Kanski eins og martraðirnar sem ég fékk fyrir fyrstu maraþonin úti... en þær voru þannig að ég var að verða of sein á startið og þegar ég kom þangað og horfði niður á fæturna - þá var ég í inniskónum

EN... það tókst að mæta tímanlega... og fara TVISVAR í klósettröðina - partur af programmet -
Veðrið lék við hlauparana, kannski aðeins of hvasst á Nesinu í lokin. Lúlli hitti mig rétt eftir 32 km keiluna og hjólaði með mér síðustu 10 km, þegar ég var í mesta rokinu á Nesinu.
Ég er ánægð með mig og minn tíma.
Þetta maraþon var nr 122 hjá mér,
Garmurinn mældi vegalengdina 42,25 km og tímann 4:53:35
Íþróttir | 21.8.2010 | 16:08 (breytt kl. 16:08) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)