Færsluflokkur: Ferðalög

Shiprock Marathon 7.maí 2016

Shiprock Marathon, Farmington, New Mexico
7.maí 2016

http://www.shiprockmarathon.com

Shiprock Marathon 7.maí 2016Ég sótti gögnin í gær, það voru 30 mílur hvora leið, um 100 km fram og til baka og svo fara rúturnar á startið frá sama stað kl 6am.

Ég reyndi að fara snemma að sofa, enda búin að keyra 310 mílur, frá PUEBLO til Farmington fyrr um daginn... ég stillti klukkuna á 3am.

Ég svaf ágætlega enda þreytt... og hafði ekki áttað mig á mikilli hæð frá sjávarmáli hérna. Farmington er í 5300 feta hæð... sem gerir 1.615 metra hæð og mér var sagt að hæsti punktur í Shiprock maraþoninu væri hærri. 

Shiprock Marathon 7.maí 2016Eftir að hafa græjað mig eins og vanalega ákvað ég að drífa mig af stað 4:45... ég keyri alltaf hægar í myrkri og svo sá ég öll sektarskiltin í gær ef maður gleymir að lækka hraðann þegar keyrt er i gegnum bæina... ég var rúman hálftíma á leiðinni og lenti þar í langri röð til að leggja bílnum... þegar upp var staðið small þetta allt saman.

Rúturnar keyrðu hlaupaleiðina... og mig langaði helst að fara bara til baka með rútunni... malbikaður sveitavegur sem var ekkert nema brekkur... 

Shiprock Marathon 7.maí 2016Það var kalt meðan við biðum eftir startinu kl 7 og þá hitti ég nokkra Maniac-a. Það var afar breytilegt veður á leiðinni. Já, fyrst var kalt og vindur í fangið, hlýtt og vindur á hlið, kalt og vindur á ská í bakið, nokkrið dropar og svo heitt... ég var alltaf að fara úr og í jakkann aftur.

Þjónustan á leiðinni var til fyrirmyndar, drykkjarstöð með mílu millibili.

Þetta mjög svo erfiða maraþon er nr 202,
Garmin mældi það 42,57km og tímann 6:39:43
Nú er bara EITT fylki eftir í hring nr 2 um USA
Governers cup, í Helena Montana 11.júní nk.


Lake Lowell Marathon 9.apr.2016

Lake Lowell Marathon & Half Marathon, 10K, 5K
Nampa, ID USA
8.apríl 2017

http://www.lakelowellmarathon.com

Það var langt og strangt ferðalag hingað... og svo verður ferðin mjög stutt - bara hlaupið og verslað. Ferðalagið að heiman og á hótelið var um 18 tímar.

Lake Lowell 9.4.2016Það er langt síðan ég fór að pakka "korter fyrir ferð" og í síðustu 2 ferðum gleymdi ég ýmsu AF HLAUPADÓTINU heima og nú gleymdi ég hlaupabolnum... ég verð að fara að skrifa gátlista !!!
Ég gisti stutt frá startinu og þetta er lítið hlaup.

Klukkan var stillt á 4am... fór samt ekki af stað fyrr en kl 6... Númerið var afhent við rásmarkið... ég fékk nr 65

Hlaupið var ræst kl 7 og við tóku beinir og langir vegir út í sveit... meðfram vatninu sem hlaupið heitir eftir, yfir stíflu framhjá sveitabæjum og ræktarlandi...

Lake Lowell 9.4.2016IDAHO er kartöflu fylkið en ég sá engin kartöflugrös... en ég fann hreiður með 4 eggjum, komin 11,8 mílur út.

Hlaupin var sama leið fram og til baka... það voru 7 drykkjarstöðvar á leiðinni, sú áttunda við snúninginn ss 15 drykkjarstöðvar með frábærri þjónustu.

Lake Lowell 9.4.2016Hitinn var 43F þegar var startað en um 80F þegar ég kom í mark.

Þetta maraþon er nr 201.
Ég hafði eytt öllu út af Garmin og úrið er víst í lagi... það mældi vegalengdina 26,23 mílur og tímann 6:39:34... og ég er sátt við það.

Nú á ég 2 fylki eftir í öðrum hring um USA...

7.maí... Shiprock Marathon í New Mexico og
11.júní... Governers Cup í Helena Montana


Marathon nr. 200 - Dust Bowl Series # Ulysses Kansas 25.mars 2016

Dust Bowl Series #3 Ulysses Kansas
25.mars 2016

http//.www.mainlymarathon.com/dustbowl

Við komum inn í seríuna á þriðja degi... svo ég sótti númerið rétt fyrir ræsingu. Ég er nr 13. Ég þekkti fullt af hlaupurum en svo bætast alltaf nýir við. Larry heimsmethafi, Matthew, Rema, Margaret, Ila, Vincent, Clyde, Frank og margir fleiri. Clint tilkynnti fyrir hlaupið að þetta væri tvö-hundruð-asta maraþonið mitt.

Ég var ekki vel upplögð, búin að vera á sýklalyfi við kvefinu og fékk í magann af því, þreytt eftir veðurteppuna í Denver og langa keyrslu hingað... hitinn var rétt undir frostmarki þegar við vorum ræst og grófur stígurinn slæmur undir fæti... en þegar svona er tilkynnt þá verður maður að komast í gegnum það og engar afsakanir.

Það voru margir sárfættir frá gærdeginum og margir heil-maraþonar gengu allan tímann. Ég fór ekki úr jakkanum fyrr en eftir 4-5 tíma þegar fór að hitna og þá var ég orðin verulega þreytt í bakinu af að ganga á þessum stíg... sem einhverntíma hefur verið malbikaður og malarborinn en bara grófu steinarnir standa upp úr núna. 

Hlaupið var ræst kl 7:30. Við fórum fram og til baka 14x sömu leiðina og þó Margaret ætti eina ferð eftir þá vildi hún endilega hlaupa með mér í markið þegar ég var búin. 

Þetta maraþon er nr 200 - hver hefði trúað því  
Garmin dó á leiðinni, spurning orðin um nýtt úr og sólgleraugu sem brotnuðu nýlega... eða er kominn tími til að hætta ??? Nei, er 13 ekki bara óhappatalan mín


Red Rock Canyon Marathon NV 20.febr. 2016

Red Rock Canyon Marathon Las Vegas Nevada
20.febr 2016
http://www.calicoracing.com  

Númerið sótt fyrir Red Rock Canyon NV 19.2.2016Ég sótti númerið í Sun Coast Casino í gærkvöldi... lítið expo en allt voðalega vinsamlegt. Við fórum beint heim á hótel, ég komst að því að ég hafði sett vitlausar hlaupabuxur í töskuna, gleymt tásuplástrinum heima og kannski týnt peysunni minni í dag... ég ákvað að hlaupa í þessum buxum, ég fann gamlar plástursleyfar í hólfinu framan á töskunni og peysan var úti í bíl :)

Klukkan var stillt á 3 am og farið að sofa...

Við erum á svo vitlausum tíma að ég sofnaði strax en var vöknuð áður en síminn hringdi. Lúlli ætlar að koma með og bíða á start/marki. Við borðuðum okkar morgunmat, ég náði að teypa tærnar með leyfunum og við vorum komin út í bíl 4:45 og settum Garmin á SunCoast Casino en þaðan fara rúturnar og við ætlum að elta... það er svo mikið niðamyrkur utan borgarinnar að ég treysti mér ekki til að finna sjálf rétta staðinn... sem eru einhver "gatnamót"

Red Rock Canyon NV 20.2.2016Við náðum að elta rútuna kl 5 á staðinn... heppin að hafa gert þetta. Kl 6:15 eða við birtingu var hlaupið ræst. Ég var búin að heyra/lesa um brekkur sem væru "brutal" og það var ekki ýkjur... ég held að ég hafi aðeins farið í EITT sem var verra... eða kannski ekki.

Ég var frosin úr kulda fyrstu míluna en svo kom blessuð sólin og var mest um 30c í hitapollum. Leiðin var ekkert nema skelfilega erfiðar brekkur en þjónustan á leiðinni var frábær og hamborgara veisla í markinu.

Red Rock Canyon NV 20.2.2016Þetta maraþon er nr 199...
Garmin mældi leiðina 26,32 mílur og tímann 6:52:21...
Mig vantaði ekki Nevada fyrir næsta hring um USA svo enn eru 4 fylki eftir. 


Mississippi Blues Marathon, Jackson MS, 9.jan.2016

Mississippi Blues Marathon
9.jan 2016
http://www.msbluesmarathon.com/ 

Númerið sótt í Mississippi Blues 9.jan 2016Ég var eins óráðin (hvort ég ætti að hlaupa) og hægt var í gær þegar ég sótti númerið. Ég er slæm í hælnum eftir síðasta maraþon og mig langaði ekki til að eyðileggja næstu maraþon... því fór ég eiginlega til að spurja hvort ég mætti breyta í hálft á miðri leið ef mér litist ekki á blikuna. Þetta er í 3ja sinn sem ég hleyp þetta hlaup, en nú hafa þeir breytt um stað á starti/marki og leiðinni.

 Mississippi Blues 9.jan 2016Ég var ákveðin að fara af stað... veðurútlitið var ekki gott, grenjandi rigning. Ég stillti klukkuna á 3 am, við þurftum líka að tékka okkur út fyrir hlaupið. Það voru nokkrar mílur í miðbæinn og við fengum gott stæði svo Lúlli gæti verið í bílnum á meðan.

Hlaupið var ræst kl 7 í rigningu, það stytti fljótlega upp og ég pakkaði regnslánni saman og geymdi... eins gott því tvisvar komu langar úrhellis-dembur en svo heit sól á milli að það sem var blautt - varð þurrt.

Mér gekk ágætlega og ákvað að skrölta alla leiðina... sem var ekkert nema brekkur. Hællinn var sæmilegur, kannski bjargaði mér að ég setti auka innlegg í skóna og ég var í stífum sokk sem hélt við.

Mississippi Blues 9.jan 2016Á 16.mílu hitti ég Sharon frá LA, hún var að strögglast við, enda aðeins bækluð í baki og við gegnum saman restina... það endaði með að það fóru allir fram úr okkur og við urðum síðastar. Hún hafði byrjað klst fyrr, ásamt Matthew, Larry Macon og fleirum sem ég þekki.

Þetta maraþon er nr 198
Á mílu 20 dó úrið mitt, ég veit ekki hvort það varð rafmagnslaust eða hvort það þoldi ekki þrumuveðrið... svo ég veit hvorki hvað vegalengdin hefði mælst og verð að bíða eftir útgefnum tíma frá hlaupinu. 
Skráður tími á mig er: 7:24:03 og það besta er að ég versnaði ekkert í hælnum.

Eftir hlaupið keyrði ég um 200 mílur til New Orleans :)

PS. Það var viðtal við mig á ,,local TV í Jackson" en ég sá það ekki þegar það var sýnt í fréttunum kvöldið 8.jan... ég get kannski fundið slóðina seinna :)


Texas Marathon 1.jan. 2016

Metal Sawing Technology Texas Marathon
1.jan. 2016
Http://www.50statesmarathonclub.com/texas.html

Texas Marathon 1.1.2016Við sóttum númerið í gær en í gleðilátunum að hitta gamla vini, gleymdi ég að taka "númers" myndina... en ég bjargaði því fyrir hlaupið í dag.

Þetta maraþon er með aflappaðri hlaupum... allt á göngustígum (4× sama leið) engin tímamörk og öll umgjörðin laus við stress.


FYRIR HLAUP Í TEXAS 2016Klukkan var stillt á 5 am en við vorum vöknuð áður. Við náðum að borða morgunmat kl 6 am og brenna svo í hlaupið. Það er afar sjaldgæft að ég nái morgunmat á hótelinu fyrir hlaup.

Hlaupið var ræst kl 8 og þrátt fyrir 75 % líkur á rigningarskúrum þá hélst þurrt allan tímann.

Rétt fyrir hlaup var verðlaunapeningurinn afhjúpaður... en útlitið er leyndarmál fram að hlaupi. Hann er risastór og ekkert smá flottur.

Texas Marathon 1.1.2016Leiðin var á göngustígum, fram og til baka og ég þekkti fullt af fólki úr fyrri hlaupum... Fólk var endalaust að stilla sér upp í hópmyndatökur á leiðinni... mjög skemmtilegt... ég verð að fá myndirnar hjá öðrum því ég hélt það myndi rigna og skildi símann eftir í bílnum.

Þetta maraþon er nr 197,
Garmurinn mældi það 26,49 mílur og tímann 6:42:29 og auðvitað var það hlaupið til heiðurs afmælisbarni dagsins, langömmu dúllunni minni Emilíu Líf sem er 4 ára í dag.


Space Coast Marathon 29.11.2015

Space Coast Marathon, Cocoa Village FL 
29.nóv 2015
http://www.spacecoastmarathon.com

20151129_051543Hin árlega systraferð til Florida innifelur Space Coast Marathon. Við keyrðum til Cocoa Beach í gær og sóttum númerin í Expo-ið... á Radison SAS, keyptum morgunmat, fengum okkur að borða og græjuðum okkur fyrir hlaupið á morgun.

Klukkan var stillt á 3 am en við vorum eiginlega vaknaðar áður... Eftir að hafa græjað okkur, borðað morgunmat og fengið nesti á hótelinu fórum við í rútuna. Hún beið fyrir utan Best Western. 

Við vorum allar skráðar í heilt maraþon sem var ræst 6:30... en ætluðum allar hálft... ég er eiginlega búin að vera hundveik, að kafna úr hósta og hef hreinlega enga heilsu fyrir heilt.

20151129_104241Veðrið var hrikalega gott, við byrjuðum í myrkri og aðeins svala en svo hitnaði og var komið yfir 30 stig áður en það hálfa var búið. Ég reyndi að hanga í einhverjum hóp en sleppti honum rétt fyrir mílu 10 þegar ég hitti Eddu og við skröltum saman í mark.

Ég var bara virkilega sátt við að fara bara hálft marathon...sem er nr 38.
Miðað við mottuna og flaggið þar sem hálft-maraþon var markað, þá sagði Garmin að tíminn væri 3:02:01 og vegalengdina 13,3 mílur... en þá var smá spotti í markið sjálft.

Ég fékk flottan aukapening fyrir að taka þátt í þessari seríu 3ja árið í röð.

Við fórum svo á ströndina :) það var yndislegt :)


Rock N Roll Savannah GA, 7.nóv 2015

Rock n Roll Savanna GA 
7.nóv 2015
http://www.runrocknroll.com/savannah/

Ég sótti gögnin í gær og þar biðu mín 3 flottir RNR verðlaunapeningar... en þetta er fimmta Rock N Rollið mitt á árinu. Ég lenti í rosalegri hitabylgju hérna, það man enginn eftir svona hita á þessum tíma... og áframhaldandi hita var spáð.  

Klukkan var stillt á 3 am... enda er breytt snið á málunum, engar skuttlur milli staða og ég verð að leggja bílnum einhversstaðar á milli starts og marks. Ég lagði í bílastæðahúsi á Liberty, um km frá marki og starti.

Hlaupið var ræst 30 mín of seint út af einhverjum vandræðum á hlaupaleiðinni... hitamollan var rosaleg, rakinn í loftinu svo mikill að það draup úr derinu. Ég fann fyrir fætinum allan tímann, leiðin var ágæt, engar stórar brekkur... það var óvenju mikið um sírenuvæl og ég hef aldrei séð eins marga liggja í aðhlynningu til hliðar á leiðinni... Eitthvað hafa vatnsbirgðirnar og pappaglösin klikkað, því á einni drykkjarstöðinni urðum við að drekka úr lófunum því glösin voru búin.

Þegar ég og hundruðir annarra hlaupara komum að skiptingu leiðar heils og hálfs maraþons var búið að loka leiðinni fyrir það heila og öllum tilkynnt að heila maraþonið hefði verið stoppað vegna hita... og við þyrftum að láta okkur nægja hálft maraþon... Maður varð bara að hlýða en margir brjálaðir yfir þessu... ég fór að taka fleiri myndir, var auðvitað mjög svekkt en reyndi að njóta restarinnar... og sólbrann þrátt fyrir sólarvörn 45

Þetta maraþon varð að hálfu maraþoni nr 37...
vegalengdin mældist 13,47 mílur... og tíminn 3:12:42...

Hlaupið er til heiðurs einkasyninum sem er 32 ára í dag :)

Ég fékk 2 aukapeninga í markinu, annan fyrir fimmta RNR-ið og hinn fyrir aðra seríu sem heitir Southern Charm.


The Appalachian Series #7 Guntersville AL, 17.okt.2015

The Appalachian Series

 

 

The Appalachian Series Day 7, Guntersville Alabama

17.okt 2015

http://mainlymarathons.dreamhosters.com/series-3/appalachian-series

Þegar ég keyrði frá Dalton til Guntersville keyrði ég yfir í annað tímabelti... og það olli mér smá vandræðum... Síminn skipti ekki um tímabelti og hótelið bauð ekki upp á wake-up-call... Bíðarinn heima stóð sig og hringdi til að vekja mig...

Guntersville AL 17.okt 2015Ég svaf ekkert sérstaklega vel en hvíldist ágætlega. Èg tékkaði mig út um 6am. Hlaupið var ræst 6:30... og það var skítkalt í upphafi.

Brautin var meðfram stóru vatni, falleg og hæfilega langir "hringir" við fórum 12x fram og til baka.

Eftir 2 hringi var ég komin úr jakkanum og sólin bakaði. Ég er ekki í formi fyrir EITT maraþon hvað þá TVÖ... svo ég gekk mikið enda enginn á ógurlegri hraðferð. 

Þetta maraþon er nr 195. Garmurinn mældi það 27,1 mílur og tímann 7:20:58... 4 eftir í öðrum hring.

Þetta maraþon var hlaupið til heiðurs Lovísu sem er 30 ára í dag.


The Appalachian series #6, Dalton Georgia 16.okt. 2015

The Appalachian Series


The Appalachian Series #6 Dalton Georgia
16.okt 2015

http://mainlymarathons.dreamhosters.com/series-3/appalachian-series

Þó það sé bara 4 tíma munur þá kemur hann fram á mér, ég fór snemma að sofa og vaknaði kl 4. Morgunmaturinn byrjar kl 6 en maðurinn leyfði mér að byrja fyrr og það nægði mér því ég var tilbúin að tékka mig út um leið. Garðurinn er í 15 til 20 mín fjarlægð og eg þurfti að fá númerið mitt afhent áður.


The Appalachian Series GA, 16.okt.2015Hlaupið var ræst kl 7:30. Í upphafi var aðeins kalt en það hitnaði fljótlega. Leiðinni var breytt í skyndi, margir búnir að hlaupa í 5 daga og Clint vildi sleppa öllum við brekkur og hafði leiðina 22 ferðir fram og til baka kringum leikvöll fyrir heila maraþonið.

Ég hitti fullt af gömlum vinum og þegar maður fer fram og til baka eru allir að heilsast og segja brandara... á hlaupaleiðinni voru krítar og éwg og aðrir skrifuðu skilaboð, ástarjátningar, brandara, hvatningar og fleira í göngustíginn.

Sólin steikti okkur en svo bjargaði smá gola okkur. Eftir hlaupið var sest upp í bíl og ég var tæpa 3 tíma að keyra til Alabama þar sem síðasta maraþonið í seríunni er á morgun, laugardag.

Þetta maraþon var til minningar elsku pabba en það eru 2 ár í dag síðan hann dó.

Þetta maraþon er nr 194, garmurinn mældi það 26,75 mílur og tímann 7:01:20
Tékk... 5 eftir í öðrum hring.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband