Hreyfing í mars 2017

Já þriðji mánuður ársins... og hvert maraþonið á fætur öðru er pantað... ekki slegið slöku við. Ræfla-prógrammið mitt er að komast upp í að hlaupa 3svar í viku án þess að fóturinn verði með uppsteit. Mánuðurinn byrjaði með maraþoni.

 4.mar... 5 km skemmtiskokk í Little Rock Arkansas, (combo)
 5.mar... Little Rock Marathon, 42,64 km
10.mar... 1200 m skriðsund
13.mar... 5 km skokk í kringum Ástjörnina
15.mar... 6,3 km skokk m/Völu, Hjallabraut
17.mar... 7,1 km skokk, 10,4 km hjól og 1200 m skriðsund
20.mar... 7,6 km skokk m/Völu, Hrafnista 
21.mar... 13 km hjól
22.mar... 10 km skokk með Völu og 3km ganga í ratleik,
24.mar... 5 km skokk kringum Vellina og 1200m skriðsund
27.mar... 6,4 km hjól m/Biddu og 4 km skokk m/Völu um Ástjörn.

31.mar... Flug til Rómar í maraþon

 


Little Rock Marathon 5.mars 2017

Little Rock Marathon and Combo, with 5 km 

http://www.littlerockmarathon.com

20170303_Little Rock AR expoÉg lenti í Little Rock á föstudegi og sótti þá númerin fyrir bæði hlaupin. Í fyrsta sinn bjóða þeir upp á Combo... og ég valdi Marathon og 5 km... sem eru í fyrramálið. Öll hlaupin byrja á Scott st og enda á Main street.

Ég er auðvitað í tímaflakki svo ég var vöknuð á undan vekjaranum sem hringdi kl 4 am. Ég var búin að sigta út bílastæði og var komin þangað 2 tímum fyrir start.
5km voru ræstir kl 7:30 og mér gekk ágætlega,um 38 mín, passaði mig að vera ekki með neinn æsing. Veðrið var frábært, aðeins kalt í upphafi en svo hlýnaði... og peningurinn flottur.

20170304_Little Rock 5 kmKlukkan var stillt á 3:30 fyrir maraþonið kl 7 am. Ég heyrði strax að það var rigning. Eftir hefðbundinn undirbúning fór ég af stað, til að fá bílastæði á betri stað... það þýðir að maður þarf að mæta snemma. Ég beið um klst í bílnum en fór síðan í Convention Center fyrir Marathon Maniac hópmyndina...og til að komast á almennilegt klósett.

Myndatakan átti að vera kl 6:30... og af 137 MM var bara einn mættur og hann kom alla leið frá Íslandi... en svo komu nokkrir í viðbót.

20170305_Little Rock MarathonÞað dróst um nokkrar mínútur að ræsa hlaupið... og það rigndi jafnt og þétt. Göturnar eru mjög sleypar í rigningu. Hálfa marathonið fór af stað með okkur og leiðin var nokkuð slétt þar til leiðir skildu... þá fengum við allar brekkurnar sem voru eftir í borginni...

Ég hafði farið af stað með 6 tíma hópnum og týndi honum í lengstu brekkunni. Þegar míla var í mark hljóp ég fram úr fyrirliðanum sem var búinn að týna öllum úr hópnum. Ég var því á undan honum í mark. 

Þetta er í 3ja sinn sem ég hleyp Little Rock Marathon, í fyrsta sinnið var það í ágætis veðri, síðan í ísregni og núna í rigningu fyrst en síðan nær þurru veðri.  

Þetta marathon er nr 211 
Garmurinn mældi það 42,64 km og tímann 6:06:26

Í dag hljóp ég til heiðurs þrem afmælisbörnum, yngst er Eva Karen langömmu-dúlla sem er 3ja ára í dag, Helga frumburður og amma Evu Karenar er 42 ára í dag og Emil mágur sem er 51.árs í dag. Þau fá öll ómældar hamingjuóskir.


Hreyfing í febrúar 2017

Eftir 4 maraþon í janúar þá er ég bara nokkuð góð. Verð samt að viðurkenna að ég hef verið óvenju lengi að snúa tímanum.

 1.febr... 6 km skokk á bretti hjá Völu,
                6,5 km ganga um hverfið um kvöldið.
 3.febr... 1200m skriðsund
 4.febr... 5 km skokk kringum Ástjörn,
 6.febr... 7 km skokk með Völu, kringum Ástjörn með útúrdúrum.
 8.febr... 6.km skokk með Völu, kringum Ástjörn,
                enduðum í fárviðri.
10.febr... 5 km skokk kringum Ástjörn og 1200m skriðsund (ekki í Ástjörn)
13.febr... 6 km ein kringum Ástjörn og 16,5 km hjól m/Völu.
15.febr... 7 km skokk m/Völu kringum Holtið og fl.
16.febr... 24 km hjól, upp Krísuvíkurveginn :)
17.febr... 1200m skriðsund
20.febr... 10,1 km skokk m/Völu, kringum Ástjörn og Holtið
22.febr... 11 km skokk m/Völu, hringur um bæinn (Hjallabraut)
25.febr... 8 km skokk, ein upp að Hvaleyrarvatni.
27.febr... 7,5 km skokk m/Völu í mikilli ófærð


Hreyfing í janúar 2017

Jamm og jæja... Ég hef verið að ná mér í fætinum, en er ekki enn komin á fullt með æfingar. Eitt hefur þó ekki breyst... ég er alltaf með nokkur maraþon í gangi :D

 1.jan... Texas Marathon, Kingwood Texas 42,56 km
 6.jan... 1000m skriðsund
 9.jan... Hjólað með Völu, 16,5 km
10.jan... skokkað kringum Ástjörn, 5km
15.jan... Maui Oceanfront Marathon,Maui Hawaii, 42,4 km
19.jan... Aloha Series #1 Marathon, Kaua´i Hawaii, 43,28 km
21.jan... Aloha Series #3 Marathon, Kaua´i Hawaii, 42,61 km 
27.jan... 1200m skriðsund
30.jan... Skokk á bretti m/Völu, 5km


ALOHA Series #3 Kaua´i Hawaii 21.jan 2017

title2017Aloha

 

 

http://mainlymarathons.com/series-3/aloha

Ég nota sama númerið áfram í seríunni, sem er nr 18. Við tókum það rólega seinnipartinn og fórum snemma að sofa... tókst samt ekki að sofa mikið. Klukkan var stillt á 2:30 því það er lengra á stöndina í Kapaa en í garðinn síðast. 

Eftir að hafa borðað, teypað tær og tekið saman dótið, lögðum við af stað. Það var hávaða rok og hafði rignt mikið um nóttina. Áður en hlaupið var ræst var komið íslenskt hágæða slagveður. Eins og síðast þurftum við að hlaupa fyrstu tímana með höfuðljós... og þá blandaðist saman hágæða slagveður, myrkur og sleypar gangstéttir. Við fórum 12 ferðir út og til baka.

En allt hefst þetta, eftir sirka 3 tíma rigndi bara með köflum en vindurinn jókst á snúningsstaðnum úti á tanga. Ég þekki örugglega annan hvern mann í Seríuhlaupunum og ALLIR þekkja mig... ég geri ekki annað en að auglýsa maraþonin heima (búin að gera það í mörg ár) og landið, sem hefur verið núna á BUCKET LIST svo margra í nokkur ár.

Mér gekk ágætlega, varð að vísu mjög stíf af hálkunni á gangstéttunum... en fóturinn hélt og ég var sæmilega góð eftir fyrri maraþonin... þetta er þriðja maraþonið í ferðinni. 
Maraþonið er til heiðurs elsku pabba sem hefði átt afmæli í dag. :*

Þetta maraþon er nr 210, 
Garmin mældi vegalengdina 42,61 km
og tímann 6:52:44

PS... verð að setja myndir seinna :) 


ALOHA series #1, Kaua´i Hawaii 19.jan. 2017

title2017Aloha

 



http://mainlymarathons.com/series-3/aloha/

Við sóttum númerið í gær, á sama stað og maraþonið byrjar á morgun. Eftir afhendinguna vorum við búin að panta miða á ,,bestu Luau" sýninguna á eyjunni sem er einmitt í Smith Family Garden Luau. Þetta var skoðunarferð, matur og sýning. Það eina sem hefði mátt vera betra, var að vera ekki í maraþoni daginn eftir.

Við fórum að sofa milli 10 og 11 um kvöldið og þurftum að vakna kl 3am. Ég er viss um að ég svaf eitthvað. Þetta var ekkert of langur tími til undirbúnings því það er 15-20 mín keyrsla á staðinn.

Hlaupið var ræst kl 4:30am, í niðamyrkri og maður eyddi mikilli orku í að fylgjast með undirlaginu, sum staðar slétt, sum staðar óslétt, dýraskítur, blaut laufblöð eða akörn sem gátu kostað fall. Hver lykkja var um 1,6 mílur - maraþonið var 16 ferðir.

Þessi sería er ný, í fyrsta sinn, maraþon 4 daga íröð og þetta var fyrsti dagurinn. Umhverfið í Smith Family Garden Luau (Wailua Kaua´i) er ótrúlega fallegt og dýralífið líka... auðvitað voru brúnu hænsnin út um allt og hanarnir stanslaust galandi, eins og um alla eyjuna... en svo voru páfuglar spígsporandi við hliðina á okkur og kisa innan um alla smáfuglana.

20170119_ Viðtal við fréttablað Kaua´iÉg var búin með 6 ferðir þegar það fór að birta og hitna... smá hluti af leiðinni var aðeins lengur í skugga. Þegar ég hafði klárað hálft, fékk ég mér afmælisköku og var tekin í blaðaviðtal eins og fleiri, hjá fréttablaði staðarins/eyjunnar... það tók smá tíma.

http://thegardenisland.com/sports/running/mainly-marathons-race-series-underway-on-kauai/article_16226e1d-4053-5e0a-8fd4-4b8af8187f24.html

Hitinn var sennilega um 30°c sem er ekki mitt besta hlaupaveður... en mér gekk samt ágætlega, fann ekki fyrir fætinum, var ekki að berjast við krampa (enda drakk ég amk 2 full glös af kóki á hverri drykkjarstöð) og ég datt ekki í leiðindi enda alltaf nóg af fólki á brautinni. Verðlaunapeningarnir hjá Clint eru stórglæsilegir og alltaf tilhlökkun að fá þá í hendurnar.  Ég tók fullt af myndum sem ég set inn seinna, hér og á FB.

Þetta maraþon er nr 209... Garmin mældi vegalengdina 43,28 km
og tímann 7:42:20 

Með þessu maraþoni held ég að ég sé búin að hlaupa maraþon á öllum (4) eyjum Hawaii sem eru með maraþon... Honolulu, Hilo, Maui og Kaua´i.


Maui Oceanfront Marathon 15.jan 2017

Maui Oceanfront Marathon & Half, 15K, 10K, 5K
Lahaina, Maui, HI USA
15.janúar 2017

http://www.MauiOceanfrontMarathon.com

20170114 Maui MarathonVið sóttum númerið í gær, ekki lengi gert, númer og bolur og þetta var í göngufæri frá hótelinu okkar. Rúturnar stoppa rétt hjá og endamarkið er líka í sömu götu. Þeir sem ætla að taka Early start þurfa að mæta í rútuna fyrir kl 3:30 og verða ræstir 4:30.

Ég ákvað að taka early-start þó ekki væri nema til að vera lengur í svala. Það var 30°C í gær og gæti verið heitara í hlaupinu.
20170115 Maui, fyrir startVið erum hvort sem er kolvitlausum tíma, svo við sofnuðum kl 18 og vöknuðum um kl 1am. Eftir að hafa borðað og græjað mig labbaði Lúlli með mér í rútuna.

Það er skelfing að vera keyrður leiðina sem maður á að hlaupa til baka og hún er ekki spennandi, á mjóum renningi í umferðinni meðfram sjónum.

20170115 Maui, míla eftirÉg var með höfuðljós og vatnsflösku eins og reglurnar sögðu. Í myrkrinu var ekkert annað að gera en horfa niður fyrir sig. Þegar birti var ekki mikið að sjá, við vorum þá komin út fyrir þennan bæ og á þjóðveginn.
Það var ekki spennandi leið, sólin skein alltaf á bakið á mér og það varð mjög fljótt heitt, götuhitinn gæti hafa verið um 35°C.

20170115 Maui, markÞetta var allt of heitt fyrir mig og ég fór fyrst að hlaupa/ganga eftir kerfi, síðan kraftganga en síðustu 4 mílurnar fór ég rétt fetið og farin að berjast við sinadrætti. Míluspjöldin töldu niður þannig að ég hef aldrei verið eins fegin og þarna, þegar ég kom að mílu 1.

Lúlli beið eftir mér í markinu.. en marksvæðið skartaði íslenska fánanum á besta stað. 

20170115 Maui, markÞetta maraþon er nr 208
Garmin mældi vegalengdina 42,4 km 
og tímann, 7:26:08


Texas Marathon 1.jan. 2017

Metal Sawing Technology Texas Marathon
Kingwood, TX USA
1.jan 2017
http://www.50statesmarathonclub.com/texas.html

01-01 17 Texas MarathonVið sóttum númerið í gær og hittum um leið okkar kæru vini Paulu og Steve Boone. Þau eru alltaf jafn frábær. Það er ekkert venjulegt hvað þau hafa mikið fyrir þessum hlaupadegi. Veðurspáin var slæm fyrir hlaupið... hellirigning og tvær þrumur á kortunum. Það hellirigndi alltaf öðru hverju á gamlársdag. Það gerði ekkert til fyrir okkur, við tókum því bara rólega.

Klukkan var stillt á 5 am. Ég svaf ágætlega. Við vorum tilbúin þegar morgunmaturinn byrjaði kl 6 og stuttu seinna vorum við lögð af stað... og máttum ekki seinni vera til að fá sæmilegt bílastæði. Loftrakinn var 100% sagði veðurspáin en það var hætt við rigningu.

01-01 17 Texas MarathonFyrir maraþonið var hefðbundin viðurkenningarathöfn, ef fólk var að hlaupa t.d. 100asta maraþonið eða í 5, 10 eða 15 sinn hjá þeim... þó fólkið fengi ekki verðlaunin fyrr en í markinu eftir hlaupið.
Ég var kölluð upp og fékk afhentan verðlaunagripinn fyrir tvo hringi um USA... Vá hvað ég er stolt af þessum grip.

Marathonið var ræst kl 8am. Sama leiðin var hlaupin 4x og ég þekkti hana vel... yfir 3 götur, 2 undirgöng og yfir 11 svell-sleipar trébrýr, kringum vatn og til baka sömu leið. Hálkan á brúnum var verst, rakinn var svo mikill að ég var mörgum sinnum næstum farin á hausinn, stígarnir voru líka sleipir og ekki bættu blaut laufblöðin stöðuna... ég hef aldrei hlaupið í öðrum eins raka og svo var óvenju heitt.

01.01.2017 Texas MarathonÉg get ekki kvartað, ég fann ekki til í fætinum, veðrið hélst "þurrt", ég hitti ótrúlega marga sem ég þekki, ég fékk viðurkenninguna mína og geðveikislega flottan verðlaunapening.

Þetta maraþon er nr 207 og er sjöunda maraþonið sem ég hleyp í Texas. 
Garmin mældi tímann 6:43:29 og vegalengdina 42,56 km.
ég kom nr 242 í mark

Ég set fleiri myndir á Facebook

Þetta maraþon var að sjálfsögðu hlaupið til heiðurs afmælisbarni dagsins Emilíu Líf langömmu dúllunni minni sem er 5 ára í dag.

 


Hlaupa-annáll fyrir árið 2016

GLEÐILEGT HLAUPÁR 2017

Verðlaunapeningar 2016Annállinn er annað árið í röð sendur út frá Texas.... Þetta ár var viðburðarríkt þó ég færi ekkert sérstaklega mörg maraþon. Ég er enn að kljást við eins meiðsli og ég fékk í Baton Rouge í Louisiana í jan 2015.
Þá gerðist eitthvað á vinsta fæti en það undarlegasta sem hefur komið fyrir mig er að meiðslin skiptu um fót þegar ég fór eitt af erfiðustu brekku maraþonum sem ég hef farið (Red Rock Canyon Marathon LV) í febr á þessu ári. Síðan þá hefur vinstri fótur verið í lagi en sá hægri stífur um ökkla og hlýðir ekki alveg. Sem betur fer er ég ekki með verki nema stöku sinnum eftir löng hlaup og hálf hölt... sérstaklega ef ég þarf að flýta mér.

Ég byrjaði HLAUP-árið 2016 í Texas, hljóp Texas Marathon í 3ja sinn, en það er alltaf á nýjársdag og svo Mississippi Blues Marathonið nokkrum dögum síðar, líka í 3ja sinn. Þetta varð eina ferðin á árinu sem ég fór tvö maraþon. 

Maraþon nr 200, Ulysses KSÍ mars ætlaði ég að taka tvö maraþon í Dust Bowl seríunni en þá lentum við í að vera veðurteppt í Denver og ófærð með tilheyrandi óveðri, kulda og veseni varð til þess að ég sleppti seinna maraþoninu þó mig vantaði fylkið... en í Ulysses Kansas fór ég mitt 200asta maraþon. 

Eftir að hafa beðið í HEILT ÁR eftir að komast í gönguferðina í Grand Canyon, þá varð draumurinn að veruleika í lok maí. Við vorum fjórar, ég, Vala, Edda og Berghildur sem gengum niður South Kaibab Trail með allt á bakinu, gistum á botninum á Bright Angel Campground og gengum upp Bright Angel Trail daginn eftir.... hvílíkt ævintýri.
https://www.youtube.com/watch?v=Br8STgrH4LY

í þessari sömu ferð hljóp ég síðasta fylkið (Montana) í annarri umferð um USA.

Reykjavíkurmaraþon markaði tímamót hjá mér í ár þegar ég hljóp HEILT maraþon þar TUTTUGASTA árið í röð... Viku seinna var Stavanger Maraþon en þar skipti ég niður í hálft maraþon í miðju hlaupi út af fætinum, svo Noregur er enn eftir :)

Ég fór 10 maraþon á árinu, átta af þeim í USA... í sjö ferðum. Þegar 2 umferðum var náð, taldi ég að gamni mínu hvað ég ætti mörg fylki fyrir þriðju umferð og þau eru 10 talsins. Þess vegna er freistandi að velja framvegis maraþon í takt við það þó markmiðið sé ekki sem stendur að taka þriðja hringinn.

Eftir að hafa náð tveim umferðum um USA, taldi Bíðari nr 1 ekki hægt annað en að leita upprunans og fara hið eina sanna maraþon í Grikklandi. Sú ferð heppnaðist mjög vel og er sennilega upphafið að fleiri Evrópuferðum.

Síðasta maraþon ársins var í systraferðinni til Orlando í lok nóv... Space Coast Marathon á Cocoa Beach. Þetta er fjórða árið í röð sem við förum og eitt ár eftir til að eignast alla geimskutlu verðlauna seríuna. Þetta er þriðja árið sem Berghildur og Edda fara hálft maraþon. Frábært hjá þeim.

GLEÐILEGT HLAUPÁR 2017


Hreyfing í desember

Já góðan daginn, hvað við erum heppin með veður enn sem komið er vetrar... ég gat hlaupið í kringum Ástjörnina núna í desember. Ég ætlaði að hlaupa meira en ég hef gert, það er alltaf fullt að gera á þessum tíma og ég hef síður viljað hlaupa mjög seint og í niða myrkri... og svo hef ég verið full af kvefi. 9.des héldum við upp á áfanga ársins með litlum hópi hér heima, maðurinn varð 70 ára á árinu, ég hljóp 200asta maraþonið, kláraði annan hring um USA og varð 60 ára 30.nóv.sl.

 5.des... 16,5 km...hjólaði með Völu hringinn okkar.
10.des... 800 m skriðsund
12.des... 5 km skokk kringum Ástjörnina
15.des... 16,5 km hjól í roki og rign með Völu
16.des... 5 km skokk, kringum hverfið og 1200m skrið
19.des... 5 km skokk á bretti, með Völu 
27.des... 5 km á bretti í BG 
29.des... Flug til Boston og daginn eftir til Texas... í næsta maraþon :)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband