Færsluflokkur: Íþróttir

Nýr hringur með Soffíu

Ég hafði steingleymt að ég hafi ætlað að hlaupa með Soffíu kl 11 í dag... af því að ég átti að vera í skólanum á morgun... svo ég klæddi mig og hljóp út í stressi... sem þreytti mig allan tímann. Soffía hljóp á móti mér og þess vegna kom nýr hringur út úr þessu...

Ég fékk 8,6 km út úr þessu, veðrið var ágætt, smá rigningardropar, hlýtt og allt autt nema á gangstéttum í kringum Suðurbæjarlaugina, þar eru alltaf skautasvell.


Loksins með Völu

Við höfum ekki hlaupið saman síðan fyrir jól. Hún var að vinna til kl 5 og ég var mætt tímanlega fyrir utan. Það var svolítið kalt og mótvindur á leiðinni niðureftir en eftir að við Vala hlaupum af stað, man ég ekki hvorki eftir vindi eða kulda... okkur hitnaði meira að segja svo að við tókum af okkur vettlinga og renndum niður...

Það var hálkulaust að mestu... og Hrafnistuhringurinn mældist 12,7 km, með smá útúrdúr við tjörnina og í vinnuna til Völu.


Í glerhálku

Hvílík hálka, ég var heppin að fljúga ekki á fésið í nokkur skipti... Ég fór út um hálf 9 í morgun, ætlaði að hitta Soffíu kl 10 við Lækjarskólann... Hálkan var svo lúmsk... við fórum bara fetið og reyndum að nota gras og möl meðfram göngustígum til að fóta okkur.

Við fórum Hrafnistuhringinn... saman fórum við 7,4 km... en hringurinn lengdist hjá mér við að hlaupa upp Hverfisgötuna á móti Soffíu og svo að hlaupa að Lækjarskóla með henni aftur áður en ég fór heim. Þetta urðu 14 km hjá mér.


Dásamlegt... snjórinn farinn :)

Ég hljóp frekar seint út, mig langaði til að fara Garðabæjarhringinn, það er svo langt síðan ég hef farið hann... en ég var eins og asninn... erfitt að breyta út af Undecided

Það er hvílíkur munur að hlaupa á auðum götum heldur en að hlaupa í ruðningunum meðfram þeim eða á illa sköfnum gangstéttum. Það rigndi aðeins, smá vindur en annars var þetta bara dásamlegt.

Hrafnistuhringurinn minn er eins og alltaf 12,5 km Smile


Frábært hlaupaveður

Hitti Soffíu við Lækjarskólann kl 11. Veðrið var æðislegt, hitinn um frostmark, logn og svo er svo gott að hlaupa á meðan það er bjart.

Við hlupum brekkurnar í Áslandinu og björguðum heimsmálunum í leiðinni eins og venjulega. Hringurinn mældist eins og áður 13,2 km.


Hrafnistuhringur

Ég hljóp út úr dyrunum rúmlega 11 í morgun... færðin var lala... laus snjór, klaki og hlýrra en ég hafði haldið. Var ein á ferð, með brodda en gleymdi vatnsflöskunni.

Ég hljóp Hrafnisturhringinn sem mælist 12,5 km eins og vanalega...


Áslandsbrekkur með Soffíu

Það er allt komið í sama horf, ég hitti Soffíu í 10°c gaddi kl 11 og við hlupum Áslandsbrekkurnar. Maður minn, hvað kuldinn beit. Ég var gjörsamlega frosin á spikinu þegar ég kom til baka. 

Áslandsbrekkuhringurinn er 13,2 km.


Fyrsta hlaup ársins

Hljóp með Kuldabola... 7°c frost... var bitin hægri vinstri á leiðinni. Þó kuldinn biti þá var veðrið mjög fallegt og þægilegt að flestar gangstéttir voru skafnar. Ég hljóp á broddum, með Laugavegshlífarnar og með grifflur. Hrafnistuhringurinn er 12,5 km og ég var svo hugsi alla leiðina að ég man ekki eftir sumum köflum leiðarinnar.
Það versta er að nú er maður kominn á þann aldur að stór hluti ársins verður nákvæmlega þannig, maður man ekki eftir því sem gerist.  


Hlaupa-annáll 2009

verðlaunapeningar 2009Þetta ár var annasamt hjá mér... 20 maraþon hlaupin á árinu LoL 
Hér er mynd af verðlauna-peningum ársins.
5 maraþon voru hlaupin hér heima, Mývatn, Akureyri, Reykjavík, FM-haustmaran og maraþon 100 km félagsins. 

15 maraþon féllu í USA... þar af voru 13 þeirra í nýjum fylkjum og komst tala fallinna fylkja í 44 talsins. Ég hljóp 2 í Florida í jan. en hafði hlaupið þar áður, svo þar bættist ekkert við. Fylkin sem bættust við eru, MS, GA, VA, NJ, OK, CO, WV, AK, PA, MI, NH, ME og NC Cool

Farnar voru 7 ferðir á árinu til Usa og hlaupin 1-4 maraþon í ferð. Í svona ferðum er það ekki bara flugþreyta og tímamunur sem leggst á mann heldur einnig mikil keyrsla... fyrir utan aukinn kostnað eftir kreppuna... Sideways... W00t... Pinch 
Bíðari nr 1 beið samviskusamlega við markið í 4 ferðum en 3-svar fór ég ein.
Bíðari nr 2 hefur staðið sig ágætlega en hann á fullt í fangi með að fylgjast með og uppfæra maraþonskrána mína.

Hlaupnir kílómetrar á árinu teljast 2.065 sem er nú ekki mikið... enda engar æfingar á milli, þegar maraþonin eru vikulega eða jafnvel 2 maraþon á einni helgi... og enn eru bara 52 vikur í árinu.

Fyrir þá sem vilja kíkja á maraþonin þá er ég með sérstakan færsluflokk MARAÞON til hliðar þar sem ég safna þeim saman og albúm með fylkjunum sem eru fallin. Þar sést hvaða maraþon ég hef hlaupið í hverju fylki fyrir sig.

 

Gleðilegt nýtt hlaupa-ár


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðasta hlaup þessa árs

Það var nístingskuldi... það bjargaði að það var logn og veðrið var fallegt. Ég hitti Soffíu heima hjá henni og við hlupum Norðurbæjarhringinn. Færðin var slæm á köflum þó sumsstaðar væri búið að skafa gangstéttir.

Ég fór hvorki í ÍR eða Hauka-hlaupið. Ég hef einu sinni tekið þátt í hlaupi í nokkurra stiga frosti og ,,frysti" í mér lungun við það... gat ekki andað djúpt í nokkrar vikur.
Það var 7°c frost þegar ég fór út og fór mína 12,2 km.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband