Færsluflokkur: MARAÞON
http://mainlymarathons.com/series-3/appalachian-series
Day 2 (Oct.12): Bluefield, Virginia start kl 7:30
Klukkan var enn stillt á 5 am... ég svaf ekki vel, var hálf vakandi alla nóttina, fyrst var ég með pirring í hægri mjöðm og niður fótinn og síðan var bröltið í Bíðaranum að trufla mig. Ég hvíldist samt eitthvað og fannst ég ekki sérstaklega þreytt í morgun.

Ég fékk mér beyglu áður en við fórum í morgunmatinn því hann var engin undirstaða fyrir daginn. Það var helli-rigning úti og ég fékk far með Ilu á startið. Við vorum færri í dag en í gær (eða mér fannst það) og allir söfnuðust undir partý-himininn.
Ég var með regnkápu eins og flestir því úrhellið var ótrúlegt. Það rigndi fyrstu 4 hringina hjá mér og síðustu 3... en hringirnir voru 12 í allt. TAKA TVÖ sama leið og í gær.

Ég var ekkert viss um að ég myndi hlaupa mikið í dag en ég var ótrúlega brött... Clint sagði okkur að hann hafi talið brekkurnar í þessum 12 hringjum og þær voru yfir 170. GAMAN GAMAN að fá að vita þetta fyrirfram þó ég hafi farið hringinn í gær.
Garmin mældi leiðina 43,6 km eins og í gær og tímann 7:02:51
Þetta maraþon er nr 178 og 16 fylki eftir í öðrum hring um USA.
MARAÞON | 12.10.2014 | 20:05 (breytt kl. 20:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Við keyrðum frá Manassas til Bluefield í gær og náðum í númerið mitt, ég er nr 83 og borðuðum pasta með hinum hlaupurunum - þetta varð að REUNION-pastaparty því ég þekkti helminginn af fólkinu... allt hlaupavinir allstaðar að í Ameríku. Við erum líka flest á sama hótelinu. Verðurspáin er ekki glæsileg... rigning.
http://mainlymarathons.com/series-3/appalachian-series/
Day 1 (Oct.11): Bluefield, West Virginia start kl 7:30

Ég reyndi að fara snemma að sofa... það er ekkert mál þegar maður er í 4 tíma tímamismun og hefur keyrt í 6 klukkutíma. Klukkuna stillti ég á 5 am... við vorum ekki viss hvort hótelið ætlaði að byrja fyrr með morgunmatinn... en þeir gerðu það. Það voru um 4 mílur á startið og allir glaðir því það var sæmilega þurrt.

Það var ekki búið að ræsa hlaupið þegar rigningin mætti. Við vorum í garði á fylkismörkum West- Virginia og Virginia... við förum því sömu leiðina 2 daga í röð og getum skráð maraþonin á bæði fylkin. Reglurnar eru að ef hlaup byrjar í einu fylki og endar í öðru getur fólk valið á hvort fylkið hlaupið er skráð. Ég þarf bæði fylkin í minni annarri ferð yfir fylkin.

Við fórum 12 sinnum sama hringinn... sem var ekkert nema brekkur. Í byrjun voru allir svo hressir en þegar á leið hætti maður að heyra ,,keep it up" eða ,,way to go" og heyrði í staðinn ,,these hills are getting steeper" eða ,,they´ve turned in to mountains".... Brekkurnar fóru virkilega illa með mig og í bleytunni voru laufin svo hál... svo er ég eitt brunasár eftir fötin.

Þessi hlaupasería er hlaupin í fyrsta sinn núna og þó nokkrir sem ætla að hlaupa alla dagana 5... ég ætla að láta mér nægja 3 daga.
Garmin mældi vegalengdina 43,6 km og tímann 7:26:35
Þetta maraþon er nr 177 og 17 eftir í öðrum hring um USA
MARAÞON | 11.10.2014 | 23:00 (breytt kl. 23:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Við sóttum gögnin á föstudeginum og í fyrsta sinn var ekkert pastapartý. Expo-ið var ágætt og ágæt tilboð þó ég endaði með að kaupa ekki neitt.
6 USA Maniac-ar voru búnir að skrá á hlaupasíðunni að þeir ætluðu að hlaupa hér... ég mætti í Maniac-bol svo þeir gætu þekkt mig... en ég sá engan þeirra þegar ég sótti númerið.
Ég hafði fengið bréf um að ætti að fá jakka í heiðursfélagaklúbb Reykjavíkurmaraþons og ég sótti hann í sérstakan bás. Takk fyrir það.

Þá var næst á dagskrá að elda sér kvöldmat, taka saman hlaupadótið, stilla klukkuna og reyna að sofna snemma. Klukkan var stillt á 6 am en ég var vöknuð áður.
Við lögðum af stað um kl 7:30, Maniac-myndataka áætlum kl 8 á tröppunum fyrir framan MR. Við náðum að vera 4 Maniacar á myndinni.

Hlaupið var ræst 8:40 og veðrið var það besta hlaupaveður sem hægt var að hugsa sér, logn, aðeins skýjað, aðeins kalt í upphafi en síðan þægilegur hiti.
Ég var samt í smá vandræðum hvort ég ætti að byrja í síðerma bol yfir hinn, en ákvað að byrja frekar í vettlingum.

Markmiðið hjá mér var bara að komast í gegnum maraþonið fyrir 6 tímatakmörkin. Mér hafði ekki alltaf tekist að hlaupa 1x í viku síðan síðasta haust en í sumar reyndi ég að bæta það upp með því að hjóla, ganga og synda.
Hnéð hélt gegnum allt hlaupið en æfingaskorturinn háði mér... síðustu 10 km varð ég að vanda mig hvernig ég beitti fótunum því það jaðraði við krampa... ég hélt ég myndi sleppa í mark en þá fékk ég svakalegan krampa í vinstra lærið þegar ég átti um 1,5 km í mark... fyrst hélt ég að ég þyrfti hreinlega að skríða í mark en ég gat hrisst hann af mér.

Bíðari nr 1 fylgdi mér síðustu 12 km, hann beið rétt hjá 30km mottunni og hjólaði með mér rest. Sonurinn fór sitt fyrsta hálf-maraþon í dag. Ég er stolt mamma og amma, því Matthías og litla systir fóru í Latabæjarhlaupið með mömmu sinni.
Þetta maraþon er nr 176 og 18 árið í röð sem ég hleyp heilt maraþon í Reykjavík.
Garmin mældi tímann 5:44:51 og vegalengdina 42,730 km (hálfum km of langt).
MARAÞON | 24.8.2014 | 09:34 (breytt kl. 10:11) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
& 10K Lubec, ME USA
One marathon - Two countries. 15.júní 2014.
http://www.bayoffundymarathon.com

Ég vaknaði við klukkuna 3:30 og gekk í að gera allt þetta venjulega fyrir hlaup. Á meðan ég var að teypa tærnar heyrði ég að það var ausandi rigning úti... Það þýddi smá breytingu... redda plastpoka til að vera í og Lúlli ákvað að vera eftir og tékka sig út kl 12... og hanga einhvers staðar þangað til ég kæmi til baka.

Ég fór því ein norður og var rúman hálftíma á leiðinni. Á miðri leið keyrði ég út úr rigningunni og sá hana ekki meir. Ég var mætt við skólann fyrir kl 6 am og tók rútu á startið.

Startið kl 7am var við vita sem er austasta kennileiti USA.
Hlaupið var þaðan um 6 mílur að brúnni til Kanada... yfir brúna og 10 mílur á nyrsta tanga hennar að vitanum þar, sömu 10 mílur til baka, yfir landamærin og svo í mark. Leiðin var EIN BREKKA... ótrúlegt hvað ég er seig að finna þessi brekkuhlaup.
Það góða var að ég hafði hvílt hnéð í viku og gat skokkað inn á milli alla leiðina... og svo tók ég fullt af myndum. Þegar ég hljóp yfir landamærin sagði ég eins og James Bond: Nothing to declare - just a cello.

Þetta er fimmta og síðasta maraþonið í þessari ferð - þau voru í 5 fylkjum... og ég held að þetta sé ljótasti verðlaunapeningur sem ég hef fengið... en kannski á hann að tákna eitthvað sem ég skil ekki ??? bakhliðin hefur mynstur eins og ígulker... en þessi bær hélt ég að væri þekkur fyrir humarveiði.
Eftir maraþonið, var ég keyrð til að sækja bílinn og svo keyrði ég til Machias að sækja Lúlla svo við gætum keyrt til Manchester NH. Þetta mun taka allan daginn... Áætluð heimferð er á morgun EN það er verkfall hjá flugvirkjum.
Maraþonið er nr 175, garmurinn mældi vegalengdina 26,6 mílur og tímann 6:03:51
MARAÞON | 16.6.2014 | 03:54 (breytt 1.7.2014 kl. 00:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lake Placid Marathon & Half Marathon
Lake Placid, New York, 8.júní 2014
http://www.LakePlacidMarathon.com

Klukkan var stillt á 5:45 en ég var vöknuð aðeins áður. Það voru svo margir hlauparar á hótelinu að við fengum morgunmat fyrir hlaupið.

það var bara einn beinn kafli í þessu hlaupi... annars var það EKKERT NEMA BREKKUR. Við fórum tvisvar sinnum nær sömu leiðina fram og til baka.

Garmin mældi það rétt og tímann 6:41:53
MARAÞON | 8.6.2014 | 22:55 (breytt 30.6.2014 kl. 23:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heartland Series, Bloomington Illinois, dagur 3
http://mainlymarathons.com/

Klukkan átti að vekja mig 3:30 en Lúlli vakti mig 20 mín fyrr með bröltinu í sér. Við vorum búin að ganga frá flestu, því við keyrum til Chicago í flug strax eftir hlaupið.
Við færðum klukkuna fram um klst þegar við komum og í ofanálag var hlaupið ræst klst fyrr, eða kl 5.
Það var glampandi sól, strax hiti i garðinum, og um mitt hlaup var hitinn kominn í 89 F og var í 86 þegar ég kláraði... svo sólarvörn 50 og moskito-spray var algert must.... heppin að hafa tekið það alvarlega, því margir voru útbitnir eftir daginn.

Lúlli tékkaði okkur út af hótelinu á meðan ég var í hlaupinu og mætti á staðinn án þess að hafa neinar fréttir af nýju barni. Ég sendi sms til að reyna að fá einhverjar fréttir.
Hringurinn var 2,2 mílur, og ferðir taldar 11 og hálfu sinnum... á 9unda hring fékk ég sms frá Lovísu um að dóttirin væri fædd og allt hefði gengið vel - Guði sé lof.

Þetta maraþon er nr 173,
garmurinn mældi það 26,2 mílur og tímann 7:03:00.
Eftir hlaupið brunuðum við til Chicago. Það var eins gott að við reiknuðum sæmilega góðan tíma fyrir okkur því við lentum í umferðartöfum, tollvega-hremmingum og hefðum ekki mátt vera seinni að ná flugi til Boston.
AUÐVITAÐ ER ÞETTA MARAÞON TILEINKAÐ NýJUSTU DúLLUNNI OKKAR :
)
MARAÞON | 7.6.2014 | 13:08 (breytt 13.10.2014 kl. 23:22) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heartland Series 4-8 júní 2014, dagur 1
http://mainlymarathons.com

Ég svaf ágætlega, og vaknaði kl 3:45 við klukkuna. Lúlli hellti á og ég fékk mér að borða, teypaði tærnar, smurði mig með vasilini, setti sólarvörn 50 þó það væri spáð rigningu og spreyjaði mig með moskito-fælu... engin smá serimonia fyrir eitt hlaup. Ég er yfir mig ánægð með nýju compression buxurnar mínar. Við ákváðum að Lúlli yrði á hótelinu á meðan, enda lítið spennandi að hanga allan tímann í bílnum ef það myndi rigna allan tímann.
Ég lagði af stað um 5:30... hafði auka bol og eitthvað fleira með... og ákvað á staðnum að vera í stutterma bol í stað hlýra bol. Auðvitað var Maniac myndataka fyrir start... en enginn þjóðsöngur.

Hlaupið var ræst kl 6 am... og maraþonið var 14 ferðir fram og til baka. Veðrið var ágætt fyrstu 10 mílurnar... en svo byrjaði að rigna... og rigna... og rigna, það var úrhellis-hellt-úr-fötu-úrhelli... svo ég var holdvot þegar èg kom í mark.
Ég byrjaði rólega, vissi ekki hvernig hnéð myndi virka.... og fann fljótlega að ég yrði bara að ganga þetta og ég tók nokkuð af myndum áður en það byrjaði að rigna, sendi sms heim (athuga hvort Lovísa væri búin að eiga) og dúllaði mèr með öðrum sem gengu. Hnéð hélt alla leið - Guði sé lof.
Þetta maraþon er nr 172,
garmurinn mældi það 26,77 mílur og tímann 7:43:51
MARAÞON | 4.6.2014 | 20:28 (breytt 30.6.2014 kl. 21:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunburst Marathon South Bend IN
31.maí 2014

Klukkan var stillt á 3:45 en eins og svo oft áður vorum við vöknuð. Við vorum búin að ákveða að ég færi ein í hlaupið, því það voru 20 mílur á startið. Ég fékk mér morgunmat, smurði álagsbletti með vasilini, teypaði tærnar, setti sólarvörn 50 á mig og Lúlli spreyjaði á mig moskito-fælu... mín var tilbúin.

Ég fékk bílastæði beint fyrir framan startið, náði Maniac-hópmyndatöku og "síðasta pissi" fyrir start. Ég hélt að ég væri að mæta í fyrra start en það var bara eitt start, kl 6am...
Fyrir hlaupið hafði ég meiri áhyggjur af v-hnénu (síðan ég datt í vetur) en æfingaleysi, en svo fann ég ekkert til í hnénu en æfingaleysið dró mig niður.
Sólin bræddi okkur fljótlega og hægt og sígandi fór hitinn í 89 F... Seinni hluta hlaupsins urðum við "sleðarnir" að taka sem hálfgerðan ratleik, því skyndilega hurfu allir löglegluþjónar og merkingar á gatnamótum. Amk einu sinni varð ég að bíða eftir næsta hlaupara og tvisvar spurði ég vegfarendur til vegar. Síðustu mílurnar fylgdust við nokkur að og fengum leiðsögn frá aðstoðarmanni á hjóli.

Garmin mældi vegalengdina 26,6 mílur og tímann 6:25:11
Þetta maraþon er nr 171
Þá var næsta skref að taka rútuna á startið og keyra heim á hótel.
MARAÞON | 31.5.2014 | 21:35 (breytt 30.6.2014 kl. 21:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Little Rock Marathon & Half Marathon, 10K, 5K (Sat)
Little Rock, AR USA, 2.febr 2014
http://www.littlerockmarathon.com
View Course Map/Elevation Chart
Klukkan var stillt á 3am sem gaf mér nógan tíma til að græja mig fyrir morgunmatinn kl 4. Ég svaf ágætlega... held ég hafi farið að sofa kl 9... þá hálfnuð með bíómynd.
Fyrra start var kl 6 am sem gefur manni 8 tíma til að komast í markið, annars er start kl 8 og 6 tíma takmörk... en ég hélt mér veitti ekki af góðum tíma, bæði búin að vera hálf-veik undanfarnar 3 vikur, datt illa á hnéð í hálkunni og er að ná mér í bakinu.

Ég hékk fyrst með 6 tíma grúppu - því fyrra start má ekki fara framfyrir hraðastjórann sem fór fremst og það gekk ágætlega fyrri helming hlaupsins. það tók mig t.d. tíma að ná hópnum eftir klósettferð... en svo fór ég að dragast aftur úr... og svo tók ég nokkrar myndir í hlaupinu.

Bíðari nr 1 stóð vaktina heima og sagði mér hvernig veðrið ætti að vera í hlaupinu... KALT og VERSNANDI eftir því sem liði á daginn... man ekki hvort hann nefndi rigningu.
Veðrið var ágætt í upphafi, en síðan fór að rigna, kólna og hvessa... þetta var orðið ansi líkt íslensku slagviðri nema göturnar hérna verða mjög hálar í bleytu... mér leið ekkert vel að hlaupa niður blautar brekkur. Veðrið var orðið mjög slæmt þegar gjallarhorn tilkynntu að hlaupinu yrði hætt vegna ,,dangerous storm"... þá var ég komin á 24.mílu og rétt slapp áfram áður en fólki var beint að strætó við Walmart.

Þegar fólk kom í mark leit það út eins og það hafi lent í hrakningum, rennandi blautt og skjálfandi úr kulda... og starfsfólkið var litlu skárra - enginn viðbúinn þessum kulda.
Peningurinn er sá alstærsti og flottasti sem ég hef fengið - þegar hann var hengdur um hálsinn gleymdist allt erfiðið... ég flýtti mér út af svæðinu, enda rigndi eins og hellt úr fötu.
Þá þurfti að leita að bílnum... eftir að hafa eytt ótrúlega mikilli orku í að hafa áhyggjur af því að renna í bleytunni í hlaupinu, rann ég í bleytu á gangstéttinni á leiðinni að bílnum og datt niður á hnéð
Garmin mældi maraþonið 43,11 km og tímann 6:20:52
Þetta maraþon er nr 170
Eftir að ég kom heim á hótelið byrjaði þvílíkt þrumu og eldinga-show... the dangerous storm.
MARAÞON | 2.3.2014 | 21:58 (breytt 3.3.2014 kl. 00:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Ég man ekki lengur hvar ég frétti af þessu hlaupi en mig langaði til að hlaupa það þó það væri bara hálf-maraþon. Ég sakna stóru borgarhlaupanna... búin að vera alltof oft í einhverjum fámennum, krummaskuðs-maraþonum.
Við vorum í Santa Barbara en keyrðum suður, fyrst til Camarillo þar sem ég sótti númerið fyrir Camarillo Maraþon og síðan keyrðum við í miðborg LA til að sækja númerið fyrir Nýjárshlaupið.

Expo-ið var sæmilegt... og þetta verður nokkuð stórt hlaup. Startið er ekki langt frá en markið er ca í 2ja mílna fjarlægð. Hótelið sem við erum á er í 14 mílna fjarlægð... og þar var SKELFILEGT bílastæðavandamál.
Við vorum aftur mætt á staðinn kl 17 en hlaupið var ræst kl 19. Ég hélt að kynnirinn væri að grínast þegar hann talaði um brekkur en ég held það séu ekki fleiri brekkur í LA.
Það var svolítið skrítið að hlaupa í myrkrinu, sérstaklega þegar við hlupum í dimmum hverfum. Það var skemmtilegt að hlaupa kringum DODGER STADIUM og líka hring í kringum völlinn inn á leikvanginum (Ég hef farið á Dodgers leik þarna).
Hlaupið gekk vel, ég var á nýjum NIKE skóm sem virkuðu vel. ég þurfti að stoppa einu sinni og færa ball-foot-púðann, það særði mig eitthvað milli tánna á v-fæti en annars var þetta ágætt.
Ég hljóp í fyrsta sinn með símann minn og tók fullt af myndum.
Garmurinn mældi vegalengdina 13,36 og tímann 3:07:00
Allt umfangið eftir hlaupið, gangan til baka að bílnum, umferðin á leiðinni út úr miðborginni og keyrslan að hótelinu tók ótrúlegan tíma, ég var ekki komin í rúmið fyrr en rúmlega 1 am... og ákvað að það væri best að sleppa maraþoninu morguninn eftir, enda klst keyrsla til Camarillo. Ég hefði einhvertíma getað það en ekki núna, svona æfingalaus.
Frétti síðar að það hefði verið mikið sandrok á meðan hlaupið var.
MARAÞON | 5.1.2014 | 16:59 (breytt 18.1.2014 kl. 17:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)