Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018

Hreyfing í apríl 2018

Ég fór alveg óvænt út til Noregs í mars, þegar ég var nýkomin heim frá Jerúsalem. Þar ætlaði ég að hlaupa meira en ég svo síðan gerði... 

 2.apr... 10 km í snjó m/Völu
 4.apr... 8.1 km að Hrafnistu m/Völu
 8.apr... Parísar Marathon Frakkland 42,86 km
11.apr... 6,2 km úti m/Völu
13.apr... 8 km ein úti og 1200m skriðsund
16.apr... 9,2 km m/Völu kringum Holtið og Ástjörn
18.apr... 6,2 km m/Völu að Álftanesvegi, 4,5 km hjól
20.apr... 1200m skriðsund
21.apr... VOR-MARAÞON FM Reykjavík 42,65 km 
23.apr... 4,1 km, ein, ætlaði lengra en var sótt v/tilboðs.
24.apr... 10,6 km, ein, að og kringum Hvaleyrarvatn
26.apr... 8,4 km, hljóp í Keflavík
27.apr... 10,6 km að/um Hvaleyrarvatn, 1,5 km hjól og 1200 m skriðsund
30.apr... 11 km, úti m/Völu, hljóp að heiman wink


Vormaraþon FM 21.apríl 2018

VOR-MARAÞON FM Í REYKJAVÍK
Í ELLIÐAÁRDAL 21.apríl 2018
http://marathonhlaup.is

Merki-FMÉg komst því miður ekki inn í Sundaborg til að sækja númerið mitt og hljóp því númerslaus. Ég var búin að fá leyfi til að byrja fyrr og ætlaði ég að vakna kl 3 og byrja kl 4am... en ráðin voru tekin af mér. Ég fór nokkuð snemma að sofa en gekk illa að sofna og snéri mér í tóma hringi... ég sem sagt svaf vakandi. Síminn stilltur á 3 am en ég vaknaði ekki við hringinguna. Lúlli vakti mig 4:20... ég hentist í fötin og fór inneftir. 30 mín... Þetta hlýtur að vera met ;)

kl 4:50 hljóp ég af stað. Það var farið að birta, ég hafði einn lítinn vatnsbrúsa með mér og stólaði algerlega á að vatns-fantarnir væru opnir en þeir voru það ekki. Ég hafði vatn fram að snúningi úti á Nesi. Þá var ég líka farinn að finna að ég hafði borðað og drukkið of lítið eftir að ég vaknaði... hálfur banani og nokkrir sopar af vatni nægja ekki. Ég datt niður í leiðindi og strengdi þess heit á leiðinni að hlaupa þetta ALDREI aftur. 

Leiðin til baka var því nokkuð erfið... ég var að drepast úr þorsta en var með nokkra gelhlunka sem ég borðaði. Ég drakk hálfan líter af kóki þegar ég kom aftur á startið en þeir áttu ekkert að borða... ég sótti hinn helminginn af banananum í bílinn og dreif mig í seinni ferðina. Ég var ekki komin að undirgöngunum þegar hlaupararnir voru ræstir.

20180421_Vormaran 2018Seinni ferðin var líka þræl erfið fyrir mig... ég var ekki hálfnuð út á Nes þegar ég fann að þorstinn var enn að plaga mig... ég drakk vel á drykkjarstöðinni við HR, sennilega of mikið því það sem var eftir af hlaupinu átti ég erfitt með að hlaupa. Ég var með verki eins og ég væri í spreng og fór 4x afsíðis en gat ekki pissað... og ef ég reyndi að hlaupa, varð ég að hlaupa stutt og vanda mig til að fá ekki sinadrætti framan á leggina. En þetta hafðist allt saman.

Ég svaf illa, svaf yfir mig, borðaði og drakk of lítið fyrir hlaup, var ekki með nóg vatn, drakk síðan of mikið, var eins og í spreng og fékk sinadrætti... Hvað gat fleira farið úrskeiðis í einu maraþoni?

Þetta maraþon er nr 227
Garmurinn mældi tímann 6:31:55 og vegalengdina 42,65 km
PS... og auðvitað á ég eftir að hlaupa þetta aftur :)


Paris Marathon 8.apríl 2018

Schneider Electric Paris International Marathon
Paris, France
8.apríl 2018
http://www.schneiderelectricparismarathon.com/en

Við Lúlli komum til Parísar á fimmtudegi, sóttum gögnin á föstudegi og svo var hlaupið á sunnudeginum eftir. Hótelið okkar er vel staðsett fyrir hlaupið og á sama götuhorni og Metro. Aldrei þessu vant verður ræst í hollum og nokkuð langt á milli. Auglýsingar fyrir maraþonið segja 55 þús manns verða á götunum. Minn rástími er síðasti rástíminn, 9:55 sem mér finnst svolítið seint.

20180406_París MaratonaÉg stillti klukkuna á 6:30... hafði sofið ágætlega amk hálfa nóttina en ég hef verið á sýklalyfjum (þriggja daga skammti) og verið að kafna úr hósta alla daga og seinni hluta nætur. Við borðuðum morgunmat á hótelinu og gengum að Sigurboganum en startið var neðar í götunni. Þulurinn stýrði víkingaklappi fyrir startið. Allt gekk vel í fyrstu en svo hitnaði verulega þegar sólin fór að skína. Það áttu að vera 5 km á milli vatnsstöðva en það teygðist sífellt á vegalengdinni á milli.

Ég hafði skrifað sérstaklega til að spurja um tímamörkin... og hafði séð á úrslitum að fólk var upp í 8 tíma. En eitthvað fór öðruvísi... eftir 4 og hálfan tíma var verið að taka allt saman, drykkjarstöðvar voru vatnslausar, og jafnvel áður hafði ég þó nokkuð fyrir að snýkja vatnsglas á bar. Ég fór að átta mig á að tímamörkin voru sennilega reiknuð frá því að elítan var ræst kl 8:13... Þegar ég loksins fékk vatn þorði ég ekki annað en að hanga með flöskuna ef ég þyrfti að fara aftur á bar einhversstaðar... enda bjargaði það mér alveg. 

Hluti leiðarinnar var meðfram Signu og þar þurftu hlauparar að vera í stórsvigi framhjá gangandi fólki... þar var ekkert pælt í að halda fólki frá. Þegar við komum aftur upp á götuna var búið að hleypa umferðinni á og eina ráðið að vera við gangstéttina en til að elta grænu röndina sem leiddi rétta leið var maður hreinlega í lífshættu á hringtorgum og sumum gatnamótum. 

Komin uþb hálfa leiðina fann ég að ég var komin með blöðru á v-hæl... held ég hafi fengið blöðru á sama stað í síðustu maraþonum í þessum skóm... uppgötvaði nú að brún á innlegginu særir mig... verð að gera eitthvað í því.

20180408_París MaratonaÞegar ég kom að síðustu 200 metrunum að markinu, sagði ein kona að það væri búið að loka, og rak mig til hliðar, ég sá svo hlaupara vera koma inn og það endaði með því að ég fékk hjálp við að klifra yfir (fékk krampa í lærin við það) svo ég gæti hlaupið yfir marklínuna.  Þar beið Lúlli, farinn að hafa áhyggjur, bæði vegna hitans sem var í dag og eins að ég er búin að vera hálf veik af þessu kvefi.

Lúlli bjargaði því að ég fengi tíma... hann hafði séð þegar þeir tóku mottuna svo ég sýndi úrið mitt og fékk tímann skráðan, síðan voru bæði verðlaunapeningarnir og bolirnir búnir... það var engin þjónusta við markið og eins og allstaðar var leitun að manneskju sem talaði ensku. Bæði bolirnir og verðlaunapeningarnir voru búnir en á leiðinni á hótelið fékk ég lánaðan verðlaunapening fyrir myndatöku.

Þetta maraþon er örugglega fínt fyrir þá sem þurfa ekki að spá í tíma en fyrir hæga hlaupara get ég ekki mælt með París.

Þetta maraþon er nr 226
Garmin mældi tímann 6:48:14 og vegalengdina 42,86 km


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband