Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

RNR Nashville Marathon 29 apríl 2017

St. Jude Rock 'n' Roll Country Music Marathon,
and 1 mile race, 
Nashville, TN USA
29.apr.2017

http://www.runrocknroll.com/nashville/

Ég sótti gögnin fyrir maraþonið og fór míluna í gær, föstudag... Síðan tók ég saman dótið svo allt væri tilbúið. Það er spáð miklum hita á morgun og búið að gefa út viðvörun... startinu var flýtt um hálftíma og ef þörf verður á verður maraþonið stytt.

2017.04.29 fyrir start í NashvilleÉg hafði stillt símann á 3am en hann hef sennilega ekki heyrt í honum þegar hann hringdi (var í hleðslu á vaskborðinu)... svo ég svaf 45 mín lengur en ég ætlaði. Ég fór samt af stað á áætluðum tíma og fékk bílastæði á ágætum stað. Þaðan voru 2-2,5 km á startið. Ég missti af Maniac hópmyndinni, fann ekki staðinn. Ég stillti mér upp við startið til að geta farið sem fyrst af stað. Fyrir start voru allir orðnir rennblautir af hita og miklum loftraka, bæði föt og húð.

Hlaupið var ræst kl 6:45... og við fengum ótrúlegt úrval af brekkum ofan á hitann sem hækkaði skart... um kl 9 var hitinn kominn í 80 F og fór hækkandi, kominn yfir 90 F í lokin. Það var mikið sírenuvæl og ég sá fólk fá aðhlynningu í sjúkratjöldum á leiðinni. Ég veit um einn Maniac sem stytti úr heilu í hálft maraþon.

Hitinn lamaði mig og ég fór að ganga þónokkuð áður en ég var hálfnuð og sama virtist vera með flesta hlauparana í kringum mig. Ég fór í "sturtu" á hverri drykkjarstöð og reyndi að fá klaka og drekka mikið... Það er erfiðast að drekka hæfilega þegar það er heitt, ef maður drekkur of mikið er maður alltaf á klósettinu en ef maður drekkur of lítið getur maður fengið hitaslag af vökvaskorti.

2017.04.29 NashvilleÉg lenti í styttingu á síðasta leggnum... ég tók á það ráð að fara fram og til baka í brautinni til að vinna upp kílómetrana en það vantaði samt nokkra upp á þegar ég kom í mark... ég lét því klukkuna ganga áfram á meðan ég gekk í gegnum marksvæðið, fram og til baka leitaði ég að Remix tjaldinu með auka verðlauna peningnum, tjaldinu með jakkanum og svo lá leiðin kringum Nissan Stadium á bílastæði B sem var fjærst og týndu km voru þar með í höfn.

Þetta maraþon er nr 213
Garmin mældi leiðina 42,45 km og tímann 6:44:11 

PS. ég var skaðbrennd á bakinu eftir sólina... kannski sturturnar hafi átt einhvern þátt í því.


Hreyfing í apríl 2017

Apríl mánuður byrjaði á maraþoni í Róm. Við Lúlli vorum þarna í fyrsta sinn... í svona gömlum borgum er ekki hægt að vera á bíl, bílastæði eru STÓRT vandamál og götur þröngar. Þess vegna gengum við þónokkuð í ferðinni, en við flugum heim 7.apríl. 

 2.apr... Maratona Di Roma, 42,88 km
10.apr... 8,1 km Hrafnistuhringur m/Völu
12.apr... 6 km skokk ein, Ástjörn m/meiru, hálsbólga ?
15.apr... 7 km skokk m/Völu, um Ástjörn og hverfið.
......... hálsbólga og kvef
21.apr... 5 km skokk ein og 1200m skriðsund
24.apr... 5,3 km skokk og 16,4 km hjól m/Völu
26.apr... 5 km með Völu kringum Ástjörnina

27.apr... flug út í næsta maraþon.
28.apr... 1 míla (ganga)... 1,6 km
29.apr... Nashville R´N´R Marathon, 42,45 km



Róm Maraþon 2.apríl 2017

Róm 2017acea Roma (Rome) Marathon & 5K
Roma, Italy

2.apríl 2017

http://www.maratonadiroma.it/?lang=en

Við erum sérstaklega heppin með staðsetningu hótelsins en óheppin að herbergið er fyrir ofan úti-bar. Start og finish á maraþoninu er hér stutt frá og á morgun byrjar morgunmaturinn klst fyrr fyrir hlaupara.

Við náðum í gögnin fyrir maraþonið degi fyrir hlaup, ss á laugardegi. Það var þvílíkur gangur í gegnum Palazzo Dei Congressi... og engin leið að stytta sér leið. Númerið mitt er F1855.

2.apr. 2017 Róm MarathonKlukkan var stillt á 5 en það var kannski óþarflega snemmt... sérstaklega því við höfum varla sofið síðustu tvær nætur vegna hávaða frá fullu, syngjandi fólki. Barinn er opinn til 3 am og þá tekur hreinsunarlið við og flöskuglamur við rúllandi gler undan kústunum...

Það var fáránlega langur gangur til að komast að innganginum að startlínu... kringum hálft Hringleikahúsið. Það byrjaði að rigna áður en ég komst af stað kl 8:45... og miklar þrumur. Colosseo er í elsta hluta borgarinnar og göturnar steinlagðar með smásteinum sem voru glerhálir í rigningunni. Fyrri hluti leiðarinnar var um marga þekkta staði m.a. Vatikanið, falleg torg með flottum gosbrunnum og nóg að sjá en síðari hlutinn var ekki eins fyrir augað. 

Í miðju hlaupsins stytti upp í ca 2 tíma en svo kom hellidemban aftur. 

2017.2.apr. Róm MarathonÉg er bara ánægð með þetta maraþon, ég þurfti að hafa fyrir því, bleytan og erfitt undirlag á meirihluta leiðarinnar. Garmurinn datt tvisvar út í löngum undirgöngum. Vatnsstöðvar voru á 5 km fresti sem dugði vegna rigningarinnar en á síðari hlutanum var ég líka farin að taka mér vatnsflöskur til að halda á.

Þetta maraþon er nr 212
Garmurinn mældi maraþonið 42,88 km og tímann 6:03:21

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband