Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Hlaupa-annáll fyrir árið 2015

Gleðilegt nýtt HLAUP-ÁR 2016

Þetta árið var ferðast eftir ákveðnu plani... ég hafði sett stefnuna á að klára annan hring um USA... og valdi ég mér því hlaup eftir fylkjum... svo ákvað ég að hlaupa 5 Rock N Roll maraþon á árinu og maraþon nr 200 í Texas 1.jan 2016.

Verðlaunapeningar fyrir 2015Ég byrjaði árið í Baton Rouge í Louisiana... og fékk þar meiðsli á vinstri fót, meiðsli sem ég er enn að takast á við. Lengi vel gat ég ekki staðsett hvort ég væri meidd á ökkla eða hæl en meiðslin eru aftan á hælnum. Þessi meiðsli hafa samt ekki orðið til að ég hætti við hlaup... ég minnkaði æfingar en hélt minni ferða-áætlun og fór m.a. til Hawaii í mars og Alaska í júní... en það eru fjarlægustu fylkin...

þá var ég búin að ákveða gönguferð niður í Grand Canyon í júní en varð að láta mér nægja að skoða gljúfrið ofanfrá... það verður að ÆFA fyrir slíkt ævintýri og fóturinn bauð ekki upp á nema algjört lágmark þetta árið. 

Savanah GA 2015Ég fór 10 ferðir til USA, oftast ein og gat krossað við 9 fylki. Ég hljóp 14 maraþon og 2 hálf-maraþon á þessu ári og í Savannah hljóp ég líka 5km bara að gamni mínu. Tvö þessara maraþona voru hér heima, Reykjavíkurmaraþon og Haust-maraþonið. 

Áætlanir mínar um að hlaupa tvö-hundraðasta maraþonið í Texas á nýjársdag fóru út um þúfur.
Í byrjun nóv, í Savannah í Georgíu var hitabylgja og af öryggisástæðum var heila maraþonið stoppað og öllum beint í mark og ég hlaup þá bara hálft maraþon...
Í systraferðinni í lok nóv var ég hálf-veik og ákvað að láta hálft maraþon nægja í það sinnið, við hlupum því allar hálft maraþon... svo tvær ferðir skiluðu bara hálfum maraþonum.

Maraþonin eru orðin 196 og tvö-hundraðasta maraþonið er núna áætlað í Ulysses í Kansas í Dust Bowl hlaupa-seríunni.

Um áramótin á ég eftir 4 fylki til að klára annan hring, KS og NM í mars, ID í apríl og MT í júní... og ég sem taldi einu sinni að ég hefði engan möguleika á að komast einn hring.


Litlar æfingar þennan mánuðinn

Við systur vorum allar hálf veikar í Flórida og kvefpestin hefur verið þrálát hjá okkur öllum allan desember... Það er varla að maður hafi staðið undir sér í hóstakviðunum. 

Við systur lentum heima 3.des og pestin hefur haldið okkur frá föstudags-sundinu... þá hefur kuldinn, snjórinn og slæma færðin ekki hjálpað til.
Hvern mánudaginn á eftir öðrum höfum við Vala ætlað að hlaupa saman en það hefur ekki tekist. Ég komst 3svar á bretti í Garðabæ og verð að láta það nægja fyrir næstu hlaupaferð. Ég mun ekki einu sinni ná úr mér kvefinu á milli ferða. 

14.des... 6 km á bretti
21.des... 7 km á bretti
27.des... 7,5 km á bretti... verst hvað það er leiðinlegt að hlaupa inni.

Næsta maraþon er 1.jan 2016 í Texas


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband