St. Jude Rock 'n' Roll Country Music Marathon,
and 1 mile race, Nashville, TN USA
29.apr.2017
http://www.runrocknroll.com/nashville/
Ég sótti gögnin fyrir maraþonið og fór míluna í gær, föstudag... Síðan tók ég saman dótið svo allt væri tilbúið. Það er spáð miklum hita á morgun og búið að gefa út viðvörun... startinu var flýtt um hálftíma og ef þörf verður á verður maraþonið stytt.
Ég hafði stillt símann á 3am en hann hef sennilega ekki heyrt í honum þegar hann hringdi (var í hleðslu á vaskborðinu)... svo ég svaf 45 mín lengur en ég ætlaði. Ég fór samt af stað á áætluðum tíma og fékk bílastæði á ágætum stað. Þaðan voru 2-2,5 km á startið. Ég missti af Maniac hópmyndinni, fann ekki staðinn. Ég stillti mér upp við startið til að geta farið sem fyrst af stað. Fyrir start voru allir orðnir rennblautir af hita og miklum loftraka, bæði föt og húð.
Hlaupið var ræst kl 6:45... og við fengum ótrúlegt úrval af brekkum ofan á hitann sem hækkaði skart... um kl 9 var hitinn kominn í 80 F og fór hækkandi, kominn yfir 90 F í lokin. Það var mikið sírenuvæl og ég sá fólk fá aðhlynningu í sjúkratjöldum á leiðinni. Ég veit um einn Maniac sem stytti úr heilu í hálft maraþon.
Hitinn lamaði mig og ég fór að ganga þónokkuð áður en ég var hálfnuð og sama virtist vera með flesta hlauparana í kringum mig. Ég fór í "sturtu" á hverri drykkjarstöð og reyndi að fá klaka og drekka mikið... Það er erfiðast að drekka hæfilega þegar það er heitt, ef maður drekkur of mikið er maður alltaf á klósettinu en ef maður drekkur of lítið getur maður fengið hitaslag af vökvaskorti.
Ég lenti í styttingu á síðasta leggnum... ég tók á það ráð að fara fram og til baka í brautinni til að vinna upp kílómetrana en það vantaði samt nokkra upp á þegar ég kom í mark... ég lét því klukkuna ganga áfram á meðan ég gekk í gegnum marksvæðið, fram og til baka leitaði ég að Remix tjaldinu með auka verðlauna peningnum, tjaldinu með jakkanum og svo lá leiðin kringum Nissan Stadium á bílastæði B sem var fjærst og týndu km voru þar með í höfn.
Þetta maraþon er nr 213
Garmin mældi leiðina 42,45 km og tímann 6:44:11
PS. ég var skaðbrennd á bakinu eftir sólina... kannski sturturnar hafi átt einhvern þátt í því.
Meginflokkur: Íþróttir | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, MARAÞON | 30.4.2017 | 03:18 (breytt 6.5.2017 kl. 11:46) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.